Tólf þúsund einstaklingar hafa sótt sér stafrænt ökuskírteini frá því að opnað var fyrir umsóknir í dag. Tvö þúsund höfðu sótt um á fyrstu tíu mínútunum eftir að opnað var fyrir umsóknir.
„Það er bara búið að vera mjög mikið fjör hjá okkur. Vefurinn byrjaði á því að gefa eftir enda álagið gríðarlegt þannig að þegar við komum honum aftur af stað höfum við bara verið að reyna að halda honum í loftinu,“ segir Vigdís Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Stafræns Íslands í samtali við fréttastofu.
Mikið álag var á umsóknarvefnum í dag og segir Vigdís að um ellefu hundruð manns opni vefinn á hverri sekúndu. „Við stöndum frammi fyrir því að það eru um 1100 manns að reyna að komast inn á hverri sekúndu. Þannig að það er kannski ekkert skrítið að það sé smá drama.“
Hvernig sæki ég stafrænt ökuskírteini?
- Sótt er um stafræn ökuskírteini á vefnum Ísland.is þar sem notendur auðkenna sig með rafrænum skilríkjum. Með samþykki notenda fer sjálfvirkt umsóknarferli í gang og samstundis birtist tengill til að sækja skírteinið í símann.
- Notendum Android-síma er bent á að sækja veski (e. Wallets) í símann áður stafrænu ökuskírteini er hlaðið niður.
- Þeir sem hafa ekki endurnýjað ökuskírteini sín frá því fyrir árið 1998 þurfa að endurnýja þau hjá sýslumanni til að geta fengið stafrænt ökuskírteini í símann.
- Einungis er hægt að hafa ökuskírteinið í einu símtæki. Ef það er sett upp á öðrum síma afvirkjast það í fyrsta tækinu.
- Ökuskírteinin gilda aðeins á Íslandi.