Íslenski boltinn

Klara um frestanir: „Vita allir að svig­rúmið er ekki mikið“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klara Bjartmarz er framkvæmdarstjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz er framkvæmdarstjóri KSÍ. mynd/skjáskot

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að svigrúmið sé lítið, en þó eitthvað, til þess að fresta og endurraða þeim leikjum sem frestaðir hafa verið vegna kórónuveirusmits í leikmannahópum Breiðabliks í Pepsi Max-deild kvenna og Stjörnunnar í Pepsi Max-deild karla.

Greint var frá því í síðustu viku að upp hafði komið smit í kvennaliði Breiðabliks og síðar í vikunni var svo greint frá því að smit væri einnig í karlaliði Stjörnunnar.

Klara sagði í samtali við RÚV í gær að svigrúmið væri ekki mikið en nú þegar á að leika efstu deildir karla og kvenna inn í nóvember.

„Það er ekkert útilokað að það þurfi að fresta fleiri leikjum. Við erum búin að fresta sjö til átta leikjum í meistaraflokki nú þegar og einhverjum leikjum í yngri flokkum,“ sagði Klara í samtali við kvöldfréttir RÚV í gærkvöldi.

„Eðlilega er fólk smeykt og kannski bíður frekari upplýsinga en við erum að binda vonir við það að á morgun (í dag) verði staðan orðinn gleggri og því hægt að taka upplýstar ákvarðanir um framhaldið.“

„Það vita það allir að svigrúmið er ekki mikið. Það er hægt að raða einhverju til aftur og það skýrðist um Evrópukeppni félagsliða nú fyrir tveimur vikum sem hjálpar okkur í sumum tilfellum en ekki öðrum. Þegar við sjáum á mánudaginn hvernig heildarmyndin er, þá getum við séð hvaða svigrúm við höfum til þess að endurraða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×