Fótbolti

Leikmaður Breiðabliks smitaður

Sindri Sverrisson skrifar
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir í leik með Breiðabliki.
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir í leik með Breiðabliki. VÍSIR/BÁRA

Leikmaður kvennaliðs Breiðabliks í fótbolta hefur greinst með kórónuveirusmit. Liðsfélagar og þjálfarar hennar, sem og leikmenn og þjálfarar KR, þurfa nú að fara í tveggja vikna sóttkví.

Samkvæmt frétt Fótbolta.net um málið er það Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir sem greindist með smit. Hún kom heim frá Bandaríkjunum þann 17. júní, í aðdraganda leiks Blika við Selfoss sem fram fór degi síðar, þar sem Andrea kom inn á sem varamaður. Hún kom einnig inn á sem varamaður gegn KR í fyrrakvöld.

Smitið greindist í dag. Sýni sem tekið var við komu Andreu til landsins reyndist neikvætt en síðar kom í ljós að hún hefði verið í nánd við smitaðan einstakling erlendis og því fór hún aftur í sýnatöku, og í það skipti reyndist sýni jákvætt. Andrea er sem stendur einkennalaus.

Allir sem hafa verið útsettir fyrir smiti í samskiptum við hana síðastliðna tvo sólarhringa, þar á meðal þátttakendur í leik Breiðabliks og KR, þurfa að fara í sóttkví í 14 daga. Smitrakning er í gangi en ljóst er að margir þurfa að fara í sóttkví. Leikmenn Selfoss hafa ekki verið settir í sóttkví.

Ljóst er að málið setur Íslandsmótið í nokkurt uppnám en Breiðablik og KR áttu að leika tvo deildarleiki hvort á næstu tveimur vikum miðað við upphaflega áætlun.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.