Enski boltinn

Aldrei fleiri horft á leik í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttu við Liverpool mennina Jordan Henderson og Alex Oxlade-Chamberlain í leiknum á  Goodison Park í gær.
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttu við Liverpool mennina Jordan Henderson og Alex Oxlade-Chamberlain í leiknum á  Goodison Park í gær. Getty/Tony McArdle

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton náðu að taka stig á móti nágrönnum sínum og verðandi Englandsmeisturum Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær en þrátt fyrir markaleysið þá fór leikurinn í sögubækurnar.

Leikur Everton og Liverpool setti nýtt met í gær því aldrei hafa fleiri horft á sjónvarpsútsendingu frá leik í ensku úrvalsdeildinni.

Alls horfðu 5,5 milljónir á leikinn hjá Sky Sports og Pick TV en mikill áhugi á leikjum helgarinnar varð til þess að gamla metið féll. Metið var orðið átta ára gamalt.

Fyrir þessa helgi höfðu mest 4,2 milljónir horft á einn leik í sjónvarpi í Bretlandi en það voru þeir sem horfðu á nágrannaslag Manchester City og Manchester United árið 2012. Vincent Kompany skoraði þá sigurmarkið fyrir Manchester City í 1-0 sigri.

Auðvitað hjálpar til að leikur Everton og Liverpool var ekki aðeins sýndur á Sky Sports heldur einnig í opinni dagskrá hjá Pick TV.

Þetta var fyrsti leikur liðanna eftir kórónuveirufaraldurinn og svo auðvitað mikill nágrannaslagur milli liða frá sömu borg. Stuðningsmenn félaganna og aðrir þyrstir í fótbolta og ekki gátu þeir mætt á Goodison Park þar sem engir áhorfendur voru leyfðir á leikvöngunum.

Liverpool hefði með sigri í leiknum í gær getað séð til þess að liðið ætti möguleika á því að tryggja sér enska meistaratitilinn á Anfield á miðvikudagskvöldið. Eftir þetta jafntefli þá þurfa stuðningsmenn Liverpool þurfa nú að bíða aðeins lengur.

Það er mikill áhugi á leikjum ensku úrvalsdeildarinnar þrátt fyrir að engir áhorfendur séu leyfðir á völlunum sjálfum.

4,5 milljónir horfðu þannig á leik Crystal Palace og Bournemouth á BBC One og iPlayer. Sá leikur fór fram á laugardaginn og var því í raun eigandi metsins í sólarhring eða þangað til að það svo féll með leik Liverpool og Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×