Enski boltinn

Fernandes: Ekki víti fyrst að VAR segir það

Sindri Sverrisson skrifar
Bruno Fernandes skoraði úr víti fyrir Manchester United en fékk ekki annað víti í lokin.
Bruno Fernandes skoraði úr víti fyrir Manchester United en fékk ekki annað víti í lokin. VÍSIR/GETTY

„Við stóðum okkur mjög vel. Þetta var erfiður leikur,“ sagði Bruno Fernandes sem skoraði úr víti fyrir Manchester United í 1-1 jafnteflinu við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Fernandes jafnaði metin tíu mínútum fyrir leikslok en Tottenham komst yfir í fyrri hálfleik með marki frá Steven Bergwijn.

„Þeir skoruðu úr skyndisókn en við vorum alltaf inni í leiknum og fengum fjölda færa. Við viljum vinna hvern einasta leik en eftir langt hlé þá stóðum við okkur vel,“ sagði Fernandes.

Þeir Fernandes og Paul Pogba léku í fyrsta sinn saman í kvöld en Pogba nældi í vítaspyrnuna sem Fernandes skoraði úr. „Þegar við æfðum í minni hópum þá æfði ég með Paul Pogba. Ég hef samt náð vel saman við alla. Paul náði í vítið og ég tók spyrnuna.“

Fernandes féll við á 90. mínútu og vítaspyrna var dæmd en dómurinn var dreginn til baka eftir að atvikið var skoðað af myndbandsdómara.

„Ég sparkaði í boltann þarna í lokin og fann fyrir fætinum hans [Eric Dier]. VAR er hérna til að hjálpa og ef að það segir að þetta sé ekki víti þá sættum við okkur við það,“ sagði Fernandes.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×