Enski boltinn

75 prósent völdu það að horfa á leikina með gerviáhorfendum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einu áhorfendurnir sem leikmenn Manchester City og Arsenal sáu í stúkunni í leiknum á miðvikudaginn. Leikmenn heyrðu heldur ekki í áhorfendum eins og fólkið heima í sófa.
Einu áhorfendurnir sem leikmenn Manchester City og Arsenal sáu í stúkunni í leiknum á miðvikudaginn. Leikmenn heyrðu heldur ekki í áhorfendum eins og fólkið heima í sófa. Getty/ Laurence Griffiths

Fyrstu leikir ensku úrvalsdeildarinnar eftir kórónuveirufaraldurinn fóru fram á miðvikudagskvöldið þar sem Aston Villa og Sheffield United gerðu markalaust jafntefli og Manchester City vann 3-0 sigur á Arsenal.

Sky Sports sýndi frá þessum leikjum og bauð áhorfendum sínum að fylgjast með leiknum með bergmáli í tómu stúkunum eða að horfa á leikina með gerviáhorfendum.

Það var enginn spurning um það hvort var vinsælla. 75 prósent áhorfendanna á leikjum miðvikudagskvöldsins völdu það frekar að horfa á leikina með gerviáhorfendum.

Áhorfendahljóðin koma úr FIFA 20 tölvuleiknum frá EA Sports og það platar vissulega hugann að heyra í þessum söngvum og fagnaðarlátum stuðningsmanna þó að enginn sé í raun í stúkunni.

Hér heima á Íslandi voru leikirnir sýndir með áhorfendahljóðunum á Símanum.

Stjórnendur áhorfendahljóðanna reyndu þarna að fara eftir því sem var að gerast inn á vellinum og velja viðbrögð gerviáhorfendanna eftir því. Það vantaði þó baulið sem hefði örugglega komið frá stuðningsmönnum Sheffield United þegar markið þeirra var ekki dæmt gilt vega bilunar í marklínutækninni.

Áhorfið var mikið á þessa tvo leiki hjá Sky Sports. 2,7 milljónir horfðu á leik Aston Villa og Sheffield United og 3,4 milljónir horfðu síðan á leik Manchester City og Arsenal.

Það var augljóslega mikið hungur í fótbolta í Englandi þegar enska úrvalsdeildin fór aftur af stað.

Næstu leikir í ensku úrvalsdeildinni eru síðan í kvöld. Norwich tekur þá á móti Southampton og í London mætast lið Tottenham og Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×