Innlent

Allt að 20 stiga hiti í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Egilsstöðum. Hlýjast verður norðaustan- og austanlands í dag.
Frá Egilsstöðum. Hlýjast verður norðaustan- og austanlands í dag. Vísir/Vilhelm

Hæg austlæg eða breytileg átt verður á landinu í dag og bjartviðri víðast hvar. Áfram er hlýtt á landinu en hiti í dag verður á bilinu 12 til 20 stig, hlýjast norðaustan- og austanlands. Seint í kvöld er svo von á skilum upp að suðurströndinni og þá gengur í suðaustanstrekking og fer að rigna.

Um helgina er útlit fyrir hlýjar suðaustanáttir með lítilsháttar vætu suðaustanlands en annars að mestu þurrt.

Í næstu viku verða austan- og suðaustanáttir ráðandi á landinu með vætu í öllum landshlutum, þó einkum sunnantil. Áfram verður þó fremur heitt á landinu og hámarkshiti oft í kringum 16 til 20 stig, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á laugardag (sumarsólstöður):

Suðaustan 8-13 m/s og rigning með köflum, en úrkomulítið norðaustantil. Hiti 12 til 21 stig, hlýjast norðanlands.

Á sunnudag:

Austan 10-15 m/s, skýjað með köflum og dálítil væta með suður- og austurströndinni. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast norðan- og vestantil.

Á mánudag og þriðjudag:

Suðaustan 8-15 m/s og víða rigning, einkum suðaustantil. Úrkomulítið norðanlands. Hiti 10 til 18 stig.

Á miðvikudag:

Suðaustlæg átt og væta í öllum landshlutum. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag: Útlit fyrir vestlæga eða breytilega átt og lítilsháttar vætu. Kólnar heldur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×