Erlent

Kínverjar segjast ekki ætla að hafa afskipti af kosningunum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Stjórnvöld í Kína sögðust í dag ekki ætla sér að hafa nokkur afskipti af bandarísku forsetakosningunum. Fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta segir í nýrri bók að forsetinn hafi beðið Kínverja um að hjálpa sér að ná endurkjöri.

Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu þann 3. nóvember næstkomandi og miðað við skoðanakannanir er nokkuð óhætt að segja að Trump sé í afar erfiðri stöðu. Hann mælist að jafnaði með um 42 prósenta fylgi samanborið við fimmtíu prósent Joes Biden, líklegs forsetaframbjóðanda Demókrata. Þá mælist Biden betur í svo gott sem öllum lykilríkjum.

Í bók Johns Bolton sem kemur út á þriðjudag, segir að Trump hafi beðið Xi Jinping, forseta Kína, um að kaupa meira af bandarískum vörum til þess að auka líkurnar á því að Trump næði endurkjöri.

Kínverjar sögðu í dag að það kæmi ekki til greina. „Kína heldur fast í það prinsipp að skipta sér ekki af innanríkismálum annarra ríkja. Við ætlum okkur ekki og munum ekki skipta okkur af bandarísku forsetakosningunum,“ sagði Zhao Lijian, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytis Kína, á blaðamannafundi.

Bolton sakar Trump um ýmislegt annað í bókinni. Meðal annars á forsetinn að hafa lofað Tyrklandsforseta að skýla tyrkneskum banka frá rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins, að hafa sagt að það væri töff að ráðast inn í Venesúela og spurt hvort Finnland væri ekki hluti af Rússlandi.

Trump sagði í símaviðtali við Fox News í nótt að með skrifum sínum væri Bolton að brjóta lög. „Hann braut lögin. Þetta er afar einfalt. Ég meina, það er varla hægt að brjóta þau meira. Þetta eru háleynilegar upplýsingar. Áhæsta stigi. Og hann hafði ekki samþykki,“ sagði forsetinn.

Forsetaembættið og dómsmálaráðuneytið reyna nú að stöðva útgáfu bókarinnar á þeim grundvelli að hún ógni þjóðaröryggi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×