Íslenski boltinn

Sleit hásin en ætlar að hjálpa FH eins og hann getur ásamt því að slá Fylki út

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brynjar Ásgeir í leik með FH gegn ÍA síðasta sumar.
Brynjar Ásgeir í leik með FH gegn ÍA síðasta sumar. VÍSIR/DANÍEL

Brynjar Ásgeir Guðmundsson, varnarmaður FH, sleit hásin á nýverið og missir af tímabilinu eins og það leggur sig. Hann ákvað þó strax að tækla þetta á jákvæðan hátt og mun gera sitt besta til að hjálpa liðsfélögunum í sumar.

Þá verður Brynjar Ásgeir á hliðarlínunni hjá Íþróttafélagi Hafnafjarðar sem leikur í 4. deildinni en hann er þjálfari liðsins. Þar var hann mættur í hjólastól eftir aðgerð þegar liðið tryggði sér sæti í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Bíður þeirra ærið verkefni en Fylkismenn koma í heimsókn í Skessuna, íþróttahús FH í Hafnafirði.

Brynjar Ásgeir, sem hefur leikið 84 leiki í efstu deild fyrir FH og Grindavík, sagði í samtali við íþróttadeild Vísis að hann hefði fljótlega áttað sig á því hvað hafði gerst þegar hann einfaldlega hrundi í jörðina á miðri æfingu FH nýverið.

„Við vorum á æfingu og eftir að ég datt í jörðina þá tók ég eftir því að það var enginn í kringum mig og áttaði mig fljótlega á því að það hafði enginn sparkað mig niður. Svo mig grunaði að hásinin hefði einfaldlega farið.“

Brynjar hafði ekki fundið fyrir verkjum í hásin en hann telur að langt og undarlegt undirbúningstímabil - þar sem leikmenn fóru aftur í gömlu góðu útihlaupin á meðan ekki mátti æfa sökum kórónufaraldursins - hafi mögulega haft áhrif. Hann hefur þó ákveðið að tækla málið af jákvæðni.

„Ég tók þann pól í hæðina að gera mig tilfallandi að öðru leyti. Vera duglegur að mæta og peppa menn. Svo maður detti ekki alveg úr og missi geðheilsuna strax. Maður þekkir að missa af leikjum en þetta er meira en það. Þetta mun augljóslega reyna á,“ sagði Brynjar um viðbrögð sín við að lenda í þessum ömurlegu meiðslum.

„Ég fór í aðgerð á fimmtudaginn var en læknirinn talaði um að þetta væri í raun besti tíminn til að slíta, svona þannig séð. Ég er hvort eð er að fara missa öllu tímabilinu núna í sumar svo ég hef allan veturinn til að jafna mig. Þarf því ekki að flýta mér til baka,“ sagði Ásgeir jafnframt en hann ætlar að nýta tímann til að bæta sig sem þjálfari.

„Ég var með ÍH í 4. deildinni sumarið 2016 og tók svo aftur við fyrir síðasta sumar. Fannar [Freyr Guðmundsson, bróðir Brynjars] er með mér þegar hann hefur tíma. Þetta er frábært tækifæri fyrir mig til að fara hugsa í nýjum hlutum. Ég ætla að fara taka þjálfaranámskeið hjá KSÍ og ég get lagt mikinn metnað í þetta núna. Svo vonandi verður eitthvað að gera.“

ÍH hefur verið að safna liði undanfarið og hefur átt góðu gengi að fagna í Mjólkurbikarnum til þessa. Er liðið komið í 32-liða úrslit keppninnar þar sem þeir fá Fylki í heimsókn þann 24. júní.

„Fylkir kemur í Skessuna, það er bara einn inngangur svo það ætti að vera auðvelt að selja inn. Við ætlum að reyna búa til alvöru prógram í kringum leikinn og fá fólk á völlinn. Ef við fáum í kringum 500 manns á leikinn þá ættum við að eiga fyrir öllum útgjöldum ársins,“ sagði Ásgeir áður en hann ræddi stórskemmtilega mynd sem náðist af honum í leik ÍH og GG í síðustu umferð Mjólkurbikarsins.

„Ég fór í aðgerð á fimmtudeginum fyrir leik og ef ég ætlaði að eiga möguleika á að sitja á hliðarlínunni í leiknum (sem fram fór á föstudaginn var) þá þyrfti ég að leyfa mér hjólastól. Ég var með góða menn til að ýta mér þarna fram og til baka svo ég gæti haldið hálfleiksræðuna og svona.“

„Ég ætla að reyna leggja mitt af mörkum bæði hjá FH og ÍH. FH stefnir á að vera í toppbaráttunni og vinna loksins þennan bikar sem við töpuðum í úrslitum í fyrra. Sama hvað ég get gert þá mun ég gera mitt til að gera það að veruleika. Ef ÍH fer svo upp úr 4. deildinni þá væri það fullkomið sumar í ófullkomnum heimi,“ sagði Brynjar að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.