Erlent

Brasilía tekur fram úr Bretlandi í Covid-dauðsföllum

Kjartan Kjartansson skrifar
Bolsonaro forseti hefur ítrekað gert lítið úr faraldrinum. Í gær hvatti hann stuðningsmenn til njósna á gjörgæsludeildum sjúkrahúsa.
Bolsonaro forseti hefur ítrekað gert lítið úr faraldrinum. Í gær hvatti hann stuðningsmenn til njósna á gjörgæsludeildum sjúkrahúsa. Vísir/EPA

Tæplega 42.000 manns hafa nú látið lífið í kórónuveirufaraldrinum í Brasilíu sem fór þannig fram úr Bretlandi í fjölda dauðsfalla vegna Covid-19. Aðeins í Bandaríkjunum hafa fleiri látist í faraldrinum til þessa.

Þrátt fyrir þetta segir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin að brasilíska heilbrigðiskerfið anni álaginu miðað við þau gögn sem hún hefur undir höndum, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Á fáum svæðum sé meiri en 80% nýting á gjörgæslurými.

Alls hafa nú tæplega 829.000 manns smitast af nýju afbrigði kórónuveirunnar í Brasilíu og 41.828 látist. Um 1.200 manns hafa látist á dag frá því á þriðjudag en engu að síður er byrjað að slaka á sóttvarnaaðgerðum víða um landið. Heilbrigðisráðuneytið greindi frá 909 nýjum dauðsföllum í dag.

Jair Bolsonaro, forseti, hefur grafið undan aðgerðum til að hefta útbreiðslu veirunnar og gert lítið úr alvarleika faraldursins. Í gær hvatti hann stuðningsmenn sína til þess að lauma sér inn á sjúkrahús landsins og taka myndir til að ganga úr skugga um hvort að verið sé að nýta gjörgæslurými. Myndirnar ættu þeir að senda lögreglunni og leyniþjónustunni til rannsóknar.


Tengdar fréttir

Ríkisstjórn Bolsonaro skipað að birta tölfræði um faraldurinn

Hæstaréttardómari í Brasilíu skipaði ríkisstjórn Jairs Bolsonaro forseta að halda áfram að birta tölfræði um kórónuveirufaraldurinn. Ríkisstjórnin hefur verið sökuð um að hylma yfir alvarleika faraldursins með því að hætta að birta heildartölur yfir fjölda látinna og smitaðra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×