Enski boltinn

Aldrei rætt við Man. Utd um Ansu Fati

Sindri Sverrisson skrifar
Ansu Fati vakti athygli þegar hann varð yngsti leikmaður í sögu Barcelona til að skora.
Ansu Fati vakti athygli þegar hann varð yngsti leikmaður í sögu Barcelona til að skora. VÍSIR/GETTY

Spænska blaðið Sport fullyrti í gær að Barcelona hefði hafnað 100 milljóna evru tilboði Manchester United í 17 ára ungstirnið Ansu Fati, en að United ætlaði sér að leggja fram hærra tilboð.

Fati er aðeins 17 ára gamall en varð í vetur yngstur í sögu Barcelona til að skora fyrir liðið. Hann hefur skorað 5 mörk í 24 leikjum á leiktíðinni, og samkvæmt Sport er Fati sá leikmaður sem að United vill fá, sérstaklega ef ekki tekst að fá Jadon Sancho frá Dortmund. Sagði blaðið að United væri reiðubúið að greiða „stjarnfræðilega“ upphæð fyrir Fati.

Xavier Vilajoana, stjórnandi hjá Barcelona, gaf hins vegar lítið fyrir það í viðtali við Sport að Fati gæti verið á förum frá félaginu.

„Hvað okkur varðar þá er engin frétt varðandi Ansu. Við höfum aldrei rætt um að selja hann. Við notum ekki leikmenn úr akademíunni til að afla fjár. Það er skýr stefna hjá okkur að selja ekki leikmenn sem við höfum trú á að komist í aðalliðið,“ sagði Vilajoana.

Manchester Evening News, sem er jafnan vel inni í málum United, segist hafa heimildir fyrir því að Sancho sé aðalskotmark United. Fari svo að hann reynist of dýr sé félagið með Thiago Almada, sem spilar í Argentínu, og Rabbi Matondo hjá Manchester City, í sigtinu.


Tengdar fréttir

Sancho orðinn of dýr fyrir Man. Utd?

Þrátt fyrir að stjórnendur hjá Dortmund hafi viðurkennt að Jadon Sancho geti veri til vandræða þá vilja þeir ekki selja hann nema fyrir himinhátt verð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×