Innlent

Hagar áttu ekki for­kaups­rétt á Korpu­torgi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hagar opnuðu verslun Bónuss á Korputorgi í mars 2009.
Hagar opnuðu verslun Bónuss á Korputorgi í mars 2009. vísir/eyþór

Landsréttur dæmdi í dag í máli Haga hf. gegn Korputorgi ehf. og SMI ehf. þeim síðarnefndu í vil. Hagar höfðuðu mál á hendur SMI og Korputorgi og kröfðust þess að viðurkennt yrði að forkaupsréttur félagsins að eignarhluta í verslunareiningu sem Hagar höfðu á leigu hefði orðið virkur þegar kaupsamningur um fasteignina komst á milli SMI og Korputorgs.

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll 26. júní 2019 og var Korputorg og SMI sýknað af kröfum Haga auk þess sem Högum er gert að greiða hvoru félaginu fyrir sig 1.250.000 krónur.

Hagar og SMI gerðu með sér leigusamning 1. september 2007 um hluta af verslunarmiðstöð sem fyrirhugað var að byggja við Blikastaðarveg 2-8 í Reykjavík, sem síðar varð Korputorg. Hagar hafa rekið matvöruverslun í nafni Bónus í húsnæðinu frá því það var tekið í notkun.

Í leigusamningnum sem gerður var milli Haga og SMI er mælt fyrir um að Hagar skuli eiga forkaupsrétt að hinu leigða húsnæði. Húsnæðið var á þessum tíma í eigu Stekkjarbrekkna ehf. sem var dótturfélag SMI. Árið 2014 voru Stekkjarbrekkur sameinaðar SMI.

Það var svo í desember 2013 sem allt húsnæðið að Blikastöðum 2-8 var seld Korputorgi ehf. en í kaupsamningnum er tekið fram að það sé forsenda hans að allir leigusamningar sem seljandi, SMI ehf., hefur gert við leigutaka muni halda gildi sínu og færast óbreyttir til kaupanda.

Að sögn SMI fyrir dómi voru kaupin liður í uppgjöri félagsins við lánadrottna og var kaupandinn, Korputorg ehf., í eigu Davíðs Freys Albertssonar og Maríu Rúnarsdóttur sem einnig voru hluthafar í SMI og stjórnendur í báðum félögunum. Högum var því ekki boðið að nýta sér forkaupsréttinn þar sem ekki hafi verið um eiginleg fasteignakaup að ræða heldur lið í endurskipulagningu á SMI auk þess sem ekki hafi verið um að ræða sölu á húsnæðinu til þriðja aðila.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×