Innlent

Ráðast í átak gegn ör­bylgju­­loft­netum

Atli Ísleifsson skrifar
Örbylgjuloftnetin eru enn víða á húsum og ef þau eru enn í sambandi við rafmagn veldur það truflunum á farsímasambandi í og við þau hús.
Örbylgjuloftnetin eru enn víða á húsum og ef þau eru enn í sambandi við rafmagn veldur það truflunum á farsímasambandi í og við þau hús. PFS

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hyggst í sumar í samstarfi við fjarskiptafélögin Vodafone, Nova og Símann ráðast í átak til að vinna bug á ítrekuðum truflunum sem hafa orðið á farsímasambandi á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Eru truflanirnar sagðar tengjast bilun í örbylgjuloftnetum.

Í tilkynningu frá PFS segir að á undanförnum vikum og misserum hafi í vaxandi mæli orðið vart við truflanar sem tengjast bilun í örbylgjuloftnetum.

„Loftnetin voru notuð til að dreifa Fjölvarpinu fram til 2017 þegar þeim útsendingum var hætt. Örbylgjuloftnetin eru enn víða á húsum og ef þau eru enn í sambandi við rafmagn veldur það truflunum á farsímasambandi í og við þau hús.

Dæmi um truflanir:

  • Minni gæði á talsambandi farsíma
  • SMS komast ekki til skila í fyrstu tilraun
  • Símtöl ná ekki í gegn í fyrstu tilraun og þau slitna
  • Streymi er hægt og höktir
  • Almenn netþjónusta og gagnaflutningur er hægur

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur m.a. það hlutverk að vakta truflanir á fjarskiptum, taka við kvörtunum og grípa til aðgerða þegar þörf er á,“ segir í tilkynningunni.

Þetta á ekki við um UHF-sjónvarpsloftnet, eða greiðurnar svokölluðu. Þau loftnet eru enn virk og verða það næstu árin.

Að finna víða á suðvesturhorninu

Örbylgjuloftnetin eru útbreidd á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars í Vesturbæ Reykjavíkur, Fossvogi og á ákveðnum svæðum í Kópavogi og Hafnarfirði. Útsendingar Fjölvarpsins náðu sömuleiðis til Akraness, Selfoss og Reykjanesbæjar.

„Talið er að allt að 20-30 þúsund loftnet geti verið að valda truflun og er verkefnið því viðamikið. Til að komast fyrir þessa truflun sem fyrst og á sem skemmstum tíma biðlum við til húseigenda á þessum svæðum að ganga í lið með okkur við að uppræta truflunina.

Það er hægt að gera með þeim einfalda hætti að kanna fyrst hvort örbylgjuloftnet sé að finna á húsum og ef svo reynist, þarf að finna út úr því hvort þau séu enn þá tengd rafmagni og taka spennugjafa þeirra úr sambandi ef svo er,“ segir í tilkynningunni.

PFS mun ráða sex sumarstarfsmenn til að sinna bilanaleit og verktaka til að aðstoða húseigendur við að aftengja búnað þegar þess er þörf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×