Enski boltinn

Lá við slags­málum á æfingu United daginn fyrir úr­slita­leik Meistara­deildarinnar árið 2008

Anton Ingi Leifsson skrifar
Frá æfingunni í Moskvu.
Frá æfingunni í Moskvu. vísir/getty

Owen Hargreaves, fyrrum miðjumaður Manchester United, segir að leikmenn United hafi verið vel gíraðir fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2008 er liðið hafði betur gegn Chelsea í Moskvu.

United hafði að skipa ansi góðu liði á þessum tíma en æfingin daginn fyrir leikinn var ekki létt, þrátt fyrir að fjölmiðlamenn hafi fylgst með stærstum hluta æfingarinnar.

Enski miðjumaðurinn segir að það hafi verið mikill ákafi á æfingunni og Sir Alex Ferguson, stjóri liðsins, hafi ekkert þurft að gíra menn upp fyrir leikinn stóra.

„Hann þurfti þess ekki. Hann vissi að leikmennirnir voru klárir. Ég man eftir æfingunni daginn fyrir leikinn í Moskvu og það var nánast slagsmál milli liðanna því bæði lið voru svo áköf,“ sagði Hargreaves í samtali við beIN Sport.

„Annað liðið tapaði og allir voru að pirra hvorn annan og Sir Alex þurfti að koma og skilja liðin að. Þannig var þetta. Allir vildu svo mikið vinna og jafnvel á æfingum, þar sem þú hélst að menn vildu ekki meiðast þá var það ekki málið. Allir voru svo spenntir fyrir leiknum.“

Leiknum lauk með 1-1 jafntefli eftir venjulegan leiktíma og ekkert mark var skorað í framlengingunni. Úrslitin réðust því í vítaspyrnukeppni þar sem United vann 6-5 en vítaspyrnukeppnin er líklega mest þekkt fyrir víti John Terry sem rann á punktinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×