Íslenski boltinn

Mál Elliða inn á borð aganefndar - Dómarinn kallaður þöngulhaus

Sindri Sverrisson skrifar
Ívar Orri Kristjánsson er einn besti dómari landsins um þessar mundir.
Ívar Orri Kristjánsson er einn besti dómari landsins um þessar mundir. VÍSIR/BÁRA

Framkvæmdastjóri KSÍ hefur vísað ummælum á Twitter-síðu 3. deildarliðsins Elliða til aga- og úrskurðarnefndar sambandsins.

Þetta staðfesti Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við Vísi í kvöld. Fótbolti.net fjallaði um ummælin í dag en þar segir að dómara í bikarleik Elliða við Hauka um helgina, milliríkjadómaranum Ívari Orra Kristjánssyni, hafi verið úthúðað á Twitter-síðu Elliða á meðan á leik stóð. Var Ívar kallaður þöngulhaus og því fagnað að hann hefði neyðst til að fara af velli vegna meiðsla. „Frábærar fréttir, Ívar hefur verið skelfilegur,“ stóð í færslu um meiðslin.

Á Twitter-síðunni biðjast Elliða-menn nú afsökunar á ummælum sínum og óska Ívari skjóts bata.

Framkvæmdastjóra KSÍ er heimilt að vísa málum til aga- og úrskurðarnefndar sem „skaðað geta ímynd knattspyrnunnar eða þeirra sem þátt taka í leiknum,“ eins og segir í reglugerð um þessi mál. Nefndin mun væntanlega taka málið fyrir á þriðjudaginn eftir viku og samkvæmt grein 13.9 í reglugerðinni gæti Elliði átt yfir höfði sér allt að 100 þúsund króna sekt. 

Elliði tapaði umræddum bikarleik við Hauka, 3-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×