Íslenski boltinn

„Get ekki beðið eftir því að spila“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur á æfingu með Selfossi.
Guðmundur á æfingu með Selfossi. mynd/arnar helgi magnússon

Fyrstu keppnisleikir fótboltasumarsins 2020 fara fram í kvöld þegar fyrsta umferð Mjólkurbikars karla hefst með þremur leikjum. ÍR tekur á móti KÁ, nýtt lið Smára og Njarðvík eigast við og Selfoss fær Snæfell í heimsókn.

„Maður hefur beðið spenntur lengi,“ sagði Guðmundur Tyrfingsson, hinn bráðefnilegi leikmaður Selfoss, í samtali við Vísi.

Leikið verður á grasvellinum á Selfossi sem gengur formlega undir heitinu JÁVERK-völlurinn. Að sögn Guðmundar kemur hann vel undan vetri.

„Völlurinn hefur sjaldan litið betur út og ég get ekki beðið eftir því að spila á honum,“ sagði Guðmundur.

Selfoss er eitt af sterkustu liðum 2. deildar á meðan Snæfell leikur í fjórðu og neðstu deild. Selfyssingar eru því miklu sigurstranglegri fyrir leik kvöldsins sem hefst klukkan 19:15.

„Ég á von á skemmtilegum leik. Við vanmetum ekki Snæfell þótt þeir séu í lakari deild. Þetta er bikarkeppni og þar getur allt gerst,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur lék sína fyrstu leiki með Selfossi 2018, þá aðeins fimmtán ára.mynd/arnar helgi magnússon

Fyrsti leikur Selfoss í 2. deildinni er gegn Kára á Akranesi á Þjóðhátíðardaginn. Selfyssingar enduðu í 3. sæti 2. deildar á síðasta tímabili og stefna á að gera betur í sumar.

„Markmiðið er klárlega að fara upp og við erum enn hungraðari núna,“ sagði Guðmundur sem lék nítján af 22 deildarleikjum Selfoss í fyrra, þá aðeins sextán ára.

Guðmundur, sem hefur leikið sextán leiki fyrir yngri landslið Íslands, hefur áhuga á að spila í sterkari deild en einbeitir sér að fullu að Selfossi í sumar.

„Auðvitað hef ég metnað til að spila á hærra getustigi og betri deild. En núna hugsa ég bara um Selfoss og sé svo til hvað gerist eftir tímabilið,“ sagði Guðmundur að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.