Fótbolti

Chelsea leiðir kapp­hlaupið um Werner

Anton Ingi Leifsson skrifar
Werner í 3-1 sigri á Köln fyrr í vikunni.
Werner í 3-1 sigri á Köln fyrr í vikunni. vísir/getty

Sky Sports fréttastofan greinir frá því að Chelsea leiði nú kapphlaupið um þýska framherjann Timo Werner sem er samningsbundinn RB Leipzig í Þýskalandi.

Þýski landsliðsmaðurinn er með klásúlu í samningi sínum sem segir að hann sé falur fyrir 55 milljónir evra, tæplega 50 milljónir punda. Sú klásúla rennur þó út mánudaginn 15. júní.

Sky Sports hefur það eftir heimildarmanni sínum sem stendur Werner nærri að hann væri reiðubúinn að semja við Chelsea þrátt fyrir að hann hafi lýst yfir áhuga sínum að spila fyrir Liverpool.

Reiknað er með að Chelsea taki ákvörðun um hvort þeir ætli að kaupa Werner í næstu viku en þessi 24 ára framherji vill fara til liðs sem spilar í Meistaradeildinni og þar sem hann verður reglulega í byrjunarliðinu.

Inter Milan og Bayern München hafa verið orðuð við Werner ásamt Chelsea og Liverpool en ólíklegt er að Werner fari til Bayern þar sem hann vill sjálfur komast frá Þýskalandi.

Uppfært 18.31: Sky Sports segir nú að Chelsea sé að ganga frá kaupunum á Werner og búið sé að ganga frá því helsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×