Erlent

„Það eina sem er rangt að segja er að segja ekki neitt“

Sylvía Hall skrifar
Meghan Markle ávarpaði útskriftarárgang gamla skóla síns.
Meghan Markle ávarpaði útskriftarárgang gamla skóla síns. Skjáskot

Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, segist vera miður sín að börn þurfi að alast upp í heimi þar sem kynþáttafordómar viðgangist. Hún nýtti ávarp sitt til útskriftarnema í sínum gamla skóla til þess að vekja athygli á málstaðnum sem mótmælendur um Bandaríkin og allan heim berjast fyrir.

„Undanfarnar vikur hef ég verið að undirbúa nokkur orð fyrir ykkur á útskriftardaginn og eins og við höfum öll séð undanfarna viku er það sem er að gerast í landinu okkar, ríkinu og heimabæ okkar átakanlegt,“ sagði Meghan í ávarpi sínu.

Hún segist varla þurfa að taka það fram að líf svartra skipti máli. Það sé eitthvað sem allir eigi að vita en það væri hræðilegt að sjá kynþáttafordómana sem væru enn til staðar í samfélaginu. Hún hafi lengi reynt að finna réttu orðin en hafi óttast að segja eitthvað rangt, sem yrði síðar tekið úr samhengi.

„Það eina sem er rangt að segja er að segja ekki neitt. Því líf George Floyd skipti máli, og líf Breonna Taylor skipti máli, og líf Philando Castile skipti máli, og líf Tamir Rice skipti máli og líf svo margra annarra sem við bæði þekkjum og þekkjum ekki,“ sagði Markle.

Á vef Reuters kemur fram að ávarp Markle sé í andstöðu við þá hefð bresku konungsfjölskyldunnar að tjá sig ekki um pólitísk málefni. Hertogahjónin hafa hins vegar sagt sig frá konunglegum skyldum og búa nú í Los Angeles með syni sínum Archie.


Tengdar fréttir

„Það á að vera þungt, þetta er ekki auðvelt“

Talið er að yfir þrjú þúsund manns hafi komið saman á samstöðumótmælum á Austurvelli síðdegis í dag. Mótmælin eru skipulögð vegna ástandsins vestanhafs þar sem mótmælt hefur verið í öllum ríkjum Bandaríkjanna vegna dauða George Floyd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×