Erlent

Þýska lög­reglan telur að Madelein­e sé látin

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Madeleine McCann var tæplega fjögurra ára þegar hún hvarf í Portúgal árið 2007.
Madeleine McCann var tæplega fjögurra ára þegar hún hvarf í Portúgal árið 2007. Vísir/EPA

„Við göngum út frá því að stúlkan sé látin,“ sagði Hans Christian Wolters, saksóknari í Þýskalandi á blaðamannafundi í dag en greint er frá þessu á vef norska ríkisútvarpsins. 

Maður á fimmtugsaldri er nú í brennidepli rannsóknar Scotland Yard á hvarfi Madeleine McCann sem hvarf úr hótelherbergi í Portúgal fyrir þrettán árum síðan. Maðurinn er 43 ára gamall Þjóðverji en hann afplánar nú dóm vegna kynferðisbrots en hann hefur ítrekað verið sakfelldur fyrir barnaníð.

Lögreglan telur að maðurinn, sem ferðaðist um Portúgal í húsbíl á sínum tíma, hafi verið á svæðinu þar sem stúlkan sást síðast en hún var þriggja ára gömul þegar hún hvarf. Foreldrar Madeleine, Gerry og Kate McCann þökkuðu lögreglunni í yfirlýsingu og bættu við að það eina sem þau vildu væri að hún fyndist.

Wolters biðlaði einnig til almennings og sagði það gríðarlega mikilvægt að vitni stigu fram. Þýskir fjölmiðlar hafa þá nafngreint manninn sem Christian B. en lögreglan hefur ekki staðfest nafn hans.

„Hann starfaði á nokkrum stöðum [í Algarve] í stuttan tíma í senn, þar á meðal á veitingastöðum á þessum tíma,“ segir í tilkynningu frá lögreglu. Hann er þá einnig grunaður um að hafa selt fíkniefni og hafa brotist inn og rænt hótelherbergi og íbúðir í útleigu.

Lögreglan sagði jafnframt að ástæða væri til að halda að fleiri en Christian B. hefðu vitneskju um hvarf Madeleine og mögulega hvar lík hennar væri að finna. Þeir einstaklingar væru hvattir til að hafa samband við lögreglu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.