Erlent

„Íslenska úttektin“ sýnir að tugir þúsunda gætu hafa látist í fíkniefnastríðinu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Rodrigo Duterte er forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte er forseti Filippseyja. Mikhail Metzel/Getty

Tugir þúsunda manna kunna að hafa látist í stríði stjórnvalda í Filippseyjum á hendur fíkniefnum síðan árið 2016. Þetta kemur fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem birt var í dag. Mannréttindaráð SÞ samþykkti á síðasta ári tillögu Íslands um úttekt á stöðu mannréttindamála í Filippseyjum.

Í skýrslunni segir að fíkniefnastríðið í Filippseyjum, sem háð hefur verið að frumkvæði Rodrigo Duterte, forseta landsins, megi túlka sem „leyfi til að drepa.“ Barátta stjórnvalda hefur einkennst af harkalegri beitingu lögregluvalds gegn grunuðum fíkniefnasölum og neytendum. Í kosningabaráttu sinni lofaði Duterte, sem náði kjöri árið 2016, að taka hart á glæpum í landinu.

Lögreglan í Filippseyjum hefur ekki þurft leitarheimild til þess að leita í húsakynnum þeirra sem grunaðir eru um að hafa fíkniefni í fórum sínum, samkvæmt mannréttindaskrifstofu SÞ. Eins segir embættið að lögreglan hafi ítrekað þvingað fram játningar sakborninga með hótunum um alvarlegt ofbeldi.

Síðan átak Dutertes hófst árið 2016 hefur það aðeins einu sinni gerst að lögreglumenn hafi verið dæmdir fyrir morð, en þrír úr þeirra röðum voru dæmdir árið 2017 fyrir morð á ungum námsmanni.

Tillaga Íslands olli hörðum viðbrögðum

Ísland lagði á síðasta ári fram tillögu um úttekt á stöðu mannréttindamála á Filippseyjum í mannréttindaráði SÞ. Tillagan var naumlega samþykkt og olli nokkurri ólgu í samskiptum ríkjanna tveggja. Fulltrúi Filippseyja í ráðinu kallaði þær þjóðir sem greiddu atkvæði með tillögunni hræsnara, og sagði að Filippseyingar yrðu sérstaklega óvinir þeirra þjóða sem hefði þóst vera þeim vinveittir, en væru í raun „falsvinir.“

Í kjölfar samþykktarinnar ýjaði Teodor Locsin Jr., utanríkisráðherra Filippseyja, að því að Fillippseyjar ættu að draga sig úr mannréttindaráðinu.

Duterte forseti var sá sem brást einna harkalegast við, en hann var afar ósáttur með framgöngu íslenskra stjórnvalda. Hann sagði meðal annars að Íslendingar borðuðu bara ís, og að hann óskaði þess að þjóðin frysi í hel.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.