Erlent

Duterte segir íslensku þjóðina bara borða ís

Eiður Þór Árnason skrifar
Duterte var frumlegur í gagnrýni sinni.
Duterte var frumlegur í gagnrýni sinni.

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segir að íslenska þjóðin geri lítið annað en að borða ís og hafi engan skilning á vandamálum landsins. Ummælin koma í kjölfar þess að Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti á dögunum ályktun sem Ísland lagði þar fram um stöðu mannréttindamála á Filippseyjum.

„Hvert er vandamál Íslands? Ekkert nema ís. Það er vandamálið ykkar. Þið hafið of mikið af ís og það er ekki hægt að greina milli dags og nætur þarna,“ sagði Duterte fyrir framan hóp þarlendra embættismanna í dag.

„Svo þið skiljið hvers vegna þar eru engir glæpir, engir lögreglumenn heldur, og þau borða bara ís.“

Klippa: Duerte talar um ÍslendingaHann hélt áfram og sagði enn fremur að Íslendingar skilji ekki þau félagslegu, efnahagslegu og pólitísku vandamál sem ríkið glími við.

Með samþykkt ályktunarinnar lýsti Mannréttindaráðið formlega yfir áhyggjum af ástandinu á Filippseyjum, hvatti stjórnvöld í landinu til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga og draga þá til ábyrgðar sem hafa staðið fyrir slíku.

Fulltrúi Filippseyja í ráðinu brást illa við ályktuninni og sagði þjóðirnar sem greiddu atkvæði með ályktuninni vera hræsnara.

Að sögn talsmanns Duterte er ályktun Íslands byggð á „röngum upplýsingum og fölskum fréttum.“

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa greint frá því að misbeiting á valdi lögreglu og aftökur án dóms og laga séu nú viðtekin venja á Filippseyjum.


Tengdar fréttir

Ummælin til marks um slæma samvisku

Málflutningur utanríkisráðherra Filippseyja er ekki svaraverður. Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við Fréttablaðið.

Mannréttindavaktin fagnar hugrekki Íslands

Sérfræðingur í málefnum Filippseyja hjá Mannréttindavaktinni segir ályktun Íslands aðeins fyrsta skrefið í að draga filippseysk stjórnvöld til ábyrgðar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.