Fótbolti

Heilt fótboltalið komið í sóttkví

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Karpaty fagna marki í Evrópuleik fyrir nokkrum árum.
Leikmenn Karpaty fagna marki í Evrópuleik fyrir nokkrum árum. EPA/SERGEY DOLZHENKO

Úkraínska úrvalsdeildarliðið Karpaty hefur farið mjög illa út úr baráttunni við kórónuveiruna og það hefur sett úkraínsku deildina í uppnám.

Leik Karpaty og Mariupol var frestað en hann átti að fara fram á sunnudaginn. Það verður hins vegar langt frá því síðasti leikurinn sem þarf að fresta vegna ástandsins innan herbúða Karpaty.

Fjölmiðlar í Úkraínu greina frá því að 26 hjá félaginu hafi greinst með kórónuveiruna en alls voru 65 sendir í próf. Allir hinir hafa síðan verður settir í sóttkví enda hafa þeir allir verið í kringum þá sem eru smitaðir.

Karpaty sendi frá sér yfirlýsingu þar sem félagið segist vonast til þess að geta aftur farið að spila leiki sína eftir tvær vikur eða þegar þeir losna úr sóttkví.

Karpaty skoraði líka á önnur félög í Úkraínu að sýna ábyrgð á tímum kórónuveirunnar og senda leikmenn, þjálfara og starfsfólk í kórónuveirupróf.

Karpaty hefur ekki aðeins orðið undir í baráttunni við COVID-19 heldur hefur einnig lítið gengið inn á vellinum á þessu tímabili.

Karpaty er neðst í fallbaráttuhluta úkraínsku deildarinnar með aðeins 2 sigra í 23 leikjum. Markatala liðsins er 18-41 og liðið er fimmt stigum fyrir neðan næsta lið.

Karpaty er frá borginni Lviv í vesturhluta Úkraínu við landamæri Póllands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×