Innlent

Friðlýsa Lundey í Kollafirði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Eyjan hefur fyrst og fremst hátt verndargildi vegna stórrar sjófuglabyggðar, einkum lunda, en á eyjunni verpa hátt í tíu þúsund pör.
Eyjan hefur fyrst og fremst hátt verndargildi vegna stórrar sjófuglabyggðar, einkum lunda, en á eyjunni verpa hátt í tíu þúsund pör. Vísir/vilhelm

Umhverfisstofnun, ásamt Reykjavíkurborg og landeiganda, hyggjast friðlýsa Lundey í Kollafirði. Með friðlýsingunni yrði eyjan friðland með það að meginmarkmiði að vernda mikilvæga sjófuglabyggð og sérstætt gróðurlendi, líkt og fram kemur í tilkynningu.

Lundey liggur á innanverðum Kollafirði, milli Geldinganess og Brimness á Kjalarnesi. Eyjan er um 400 m löng og 150 m breidd þar sem hún er breiðust. Lægst er hún að austanverðu en hækkar til vesturs og er hún um 14 m.y.s þar sem hún er hæst. Klettabelti stendur í sjó fram og stórgrýtt fjara að neðan. Eyjan er að mestu úr grágrýti, algróin og stórþýfð.

Tillaga að mörkum svæðisins miðast við hnitsett mörk samkvæmt korti.

Eyjan hefur fyrst og fremst hátt verndargildi vegna stórrar sjófuglabyggðar, einkum lunda, en á eyjunni verpa hátt í tíu þúsund pör. Samkvæmt válista Náttúrufræðistofnunar Íslands er lundi flokkaður sem tegund í bráðri hættu. Auk þess er svæðið mikilvægt bú- og varpsvæði fleiri mikilvægra fuglategunda s.s. ritu, æður og teistu sem einnig eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Í Lundey er að finna sérstætt gróðurlendi en á tveimur stöðum á svæðinu vaxa blettir með gulstör sem blandast við haugarfa. Nálægð eyjarinnar við höfuðborgarsvæðið eykur þá mikilvægi hennar, bæði til fræðslu og náttúruskoðunar ferðamanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×