Erlent

Köfnun banamein Floyd

Sylvía Hall skrifar
Andlát George Floyd hefur leitt til mótmæla víða um heim.
Andlát George Floyd hefur leitt til mótmæla víða um heim. VísiR/Getty

Niðurstöður krufningarskýrslu réttarmeinafræðingsins Dr. Michael Baden sýna fram á að George Floyd hafi látist vegna köfnunar. Fjölskylda Floyd lét framkvæma krufninguna en yfirvöld í Minneapolis hafa enn ekki gefið út lokaniðurstöður krufningarinnar sem gerð var af yfirvöldum í borginni, að því er fram kemur á vef New York Times.

Réttarmeinafræðingur Hennpin-sýslu hefur þó fullyrt að ekkert í niðurstöðum þeirrar krufningar hafi sýnt fram á að Floyd hafi kafnað eða verið kyrktur til dauða. Hann lést fyrir viku síðan eftir að lögreglumaðurinn Derek Chauvin lagði hné sitt að hálsi hans í átta mínútur og 46 sekúndur.

Að sögn Dr. Baden er ekkert sem bendir til þess að Floyd hafi haft undirliggjandi kvilla sem gætu hafa leitt til dauða hans. Á meðan þrengt var að öndunarvegi hans komst hvorki blóð að heila Floyd né loft í lungu hans og því kafnaði hann eftir aðgerðir lögreglumannsins.

Á vef New York Times eru niðurstöðurnar bornar undir réttarmeinasérfræðinginn Lawrence Kobilinsky hjá John Jay College. Hann segir að niðurstöður réttarmeinafræðings Hennepin-sýslu, að engin ummerki bendi til þess að Floyd hafi kafnað, ekki þýða að aðgerðir lögreglunnar hafi ekki leitt til dauða hans. Þó að engin brot eða áverkar séu í hálsi Floyd sé líklegast að hann væri enn á lífi ef lögreglumaðurinn hafi ekki haldið honum niðri með þessum hætti.

Floyd tilkynnti lögreglumanninum ítrekað að hann næði ekki andanum og hrópaði hann: „Ég næ ekki andanum,“ og „ekki drepa mig!“ þegar hann lá á jörðinni í tökum lögreglumannsins. Vegfarendur sem fylgdust með báðu lögreglumanninn um að létta á takinu og bentu á að Floyd lægi hreyfingarlaus. Myndbandið má sjá hér en rétt er að vara lesendur við efni þess.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×