Erlent

Köfnun banamein Floyd

Sylvía Hall skrifar
Andlát George Floyd hefur leitt til mótmæla víða um heim.
Andlát George Floyd hefur leitt til mótmæla víða um heim. VísiR/Getty

Niðurstöður krufningarskýrslu réttarmeinafræðingsins Dr. Michael Baden sýna fram á að George Floyd hafi látist vegna köfnunar. Fjölskylda Floyd lét framkvæma krufninguna en yfirvöld í Minneapolis hafa enn ekki gefið út lokaniðurstöður krufningarinnar sem gerð var af yfirvöldum í borginni, að því er fram kemur á vef New York Times.

Réttarmeinafræðingur Hennpin-sýslu hefur þó fullyrt að ekkert í niðurstöðum þeirrar krufningar hafi sýnt fram á að Floyd hafi kafnað eða verið kyrktur til dauða. Hann lést fyrir viku síðan eftir að lögreglumaðurinn Derek Chauvin lagði hné sitt að hálsi hans í átta mínútur og 46 sekúndur.

Að sögn Dr. Baden er ekkert sem bendir til þess að Floyd hafi haft undirliggjandi kvilla sem gætu hafa leitt til dauða hans. Á meðan þrengt var að öndunarvegi hans komst hvorki blóð að heila Floyd né loft í lungu hans og því kafnaði hann eftir aðgerðir lögreglumannsins.

Á vef New York Times eru niðurstöðurnar bornar undir réttarmeinasérfræðinginn Lawrence Kobilinsky hjá John Jay College. Hann segir að niðurstöður réttarmeinafræðings Hennepin-sýslu, að engin ummerki bendi til þess að Floyd hafi kafnað, ekki þýða að aðgerðir lögreglunnar hafi ekki leitt til dauða hans. Þó að engin brot eða áverkar séu í hálsi Floyd sé líklegast að hann væri enn á lífi ef lögreglumaðurinn hafi ekki haldið honum niðri með þessum hætti.

Floyd tilkynnti lögreglumanninum ítrekað að hann næði ekki andanum og hrópaði hann: „Ég næ ekki andanum,“ og „ekki drepa mig!“ þegar hann lá á jörðinni í tökum lögreglumannsins. Vegfarendur sem fylgdust með báðu lögreglumanninn um að létta á takinu og bentu á að Floyd lægi hreyfingarlaus. Myndbandið má sjá hér en rétt er að vara lesendur við efni þess.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.