Enski boltinn

Liverpool vonast enn eftir Werner sem vill koma

Sindri Sverrisson skrifar
Timo Werner hefur raðað inn mörkum fyrir RB Leipzig á leiktíðinni.
Timo Werner hefur raðað inn mörkum fyrir RB Leipzig á leiktíðinni. vísir/getty

Liverpool hefur tíma fram til 15. júní til að kaupa þýska framherjann Timo Werner á 52,7 milljónir punda, jafnvirði 8,8 milljarða króna, frá RB Leipzig.

Werner er falur fyrir þessa upphæð vegna klásúlu í samningi við Leipzig, en fresturinn til að nýta klásúluna rennur út eftir hálfan mánuð. Samkvæmt frétt The Guardian vill Werner sjálfur fara til Liverpool og Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur tjáð stjórn félagsins að Werner yrði fullkominn fyrir hina verðandi Englandsmeistara.

Liverpool hefur ekki lagt fram tilboð í Werner, og þar ráða erfiðleikar vegna kórónuveirufaraldursins eflaust miklu. The Guardian segir að félagið hafi ekki gefist upp við að finna leið til að reiða fram 52,7 milljónir punda fyrir 15. júní. Takist það ekki þyrfti Liverpool að semja við Leipzig um kaupverð, en samningur Werners við þýska félagið gildir til ársins 2023.

Inter Mílanó hafði áhuga á Werner en íþróttastjóri Inter, Piero Ausilio, sagði í gær að Werner kæmi ekki til félagsins. Viðræður við leikmanninn hefðu aldrei hafist og ljóst væri hvert hugur hans stefndi.

Werner, sem er 24 ára, hóf ferilinn hjá Stuttgart en fór til RB Leipzig árið 2016. Síðan þá hefur hann skorað yfir 10 mörk á hverju tímabili í þýsku 1. deildinni og hann hefur skorað 24 mörk í 28 leikjum í vetur, þar á meðal þrennu gegn Mainz um síðustu helgi. Leipzig er fyrir leiki dagsins níu stigum á eftir Bayern München í toppbaráttu deildarinnar.


Tengdar fréttir

Mainz bað Klopp um að kaupa Werner strax

Twitter-síða þýska úrvalsdeildarliðið Mainz sló á létta strengi eftir að Timo Werner skoraði þrjú mörk gegn þeim um helgina en þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem Werner gerði Mainz lífið leitt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.