Fótbolti

Úrslitaleikurinn tekinn frá Tyrkjum

Sindri Sverrisson skrifar
Atlético Madrid sló Liverpool með dramatískum hætti út úr Meistaradeildinni rétt áður en hlé var gert vegna kórónuveirufaraldursins.
Atlético Madrid sló Liverpool með dramatískum hætti út úr Meistaradeildinni rétt áður en hlé var gert vegna kórónuveirufaraldursins. VÍSIR/GETTY

Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu í fótbolta verður ekki spilaður í Istanbúl í Tyrklandi eins og til stóð. Leikurinn átti að fara fram í dag en kórónuveirufaraldurinn kom í veg fyrir það.

Það er bandaríski miðillinn The New York Times sem segir að leikurinn verði færður frá Istanbúl, og hefur það eftir heimildamanni.

Knattspyrnusamband Evrópu, sem heldur utan um Meistaradeildina, skoðar nú ýmsa möguleika til að klára keppnina. Hlé var gert á henni þegar 16-liða úrslit höfðu verið kláruð að hluta. Deildakeppni er nú hafin að nýju í ýmsum löndum eftir hlé vegna faraldursins, til að mynda í Þýskalandi, og fer brátt að hefjast í Englandi, á Spáni og Ítalíu. Ekki hefur hins vegar verið gefið út hvernig keppni í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni verður lokið.

Samkvæmt NYT gætu mál skýrst eftir fund framkvæmdastjórnar þann 17. júní, en ekki er ljóst hvort að úrslitaleikur Evrópudeildarinnar verður færður frá Gdansk í Póllandi.

UEFA mun ræða við tyrknesk stjórnvöld í næstu viku til að ljúka formlega við samkomulag um að úrslitaleikur Meistaradeildarinnar verði færður. Svo gæti farið að borgin fái úrslitaleik síðar. Samkvæmt spænskum miðlum gæti úrslitaleikurinn í ár farið fram í Lissabon í Portúgal, en fleiri staðir koma til greina samkvæmt heimildamanni NYT.

UEFA fær himinháar tekjur vegna sjónvarpsréttinda að Meistaradeildinni og það myndi kosta sambandið hundruð milljóna Bandaríkjadala ef að ekki tækist að ljúka keppninni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.