Innlent

„Að skima fólk sem er ekki með einkenni eru ekki góð vísindi“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum.
Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum. Stöð 2

Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum, segir að það séu ekki góð vísindi að taka sýni úr einkennalausum ferðamönnum á landamærunum líkt og fyrirhugað er í júní. Hún var til viðtals í Reykjavík síðdegis.

„Það að skima fólk sem er ekki með einkenni eru ekki góð vísindi. Það er mjög hátt hlutfall af falskt neikvæðum sýnum þannig að við munum hvort eð er hleypa til landsins einstaklingum sem hugsanlega eru með veiruna og eru sýktir en eru ekki með jákvætt sýni.“

Orku heilbrigðisstarfsfólks sé betur varið í annað

Hún segir að gífurlega mikil orka, fjármunir og vinna hafa farið í að skoða möguleikann á að skima ferðamenn á landamærunum. Áætlanir stjórnvalda um skimun á Keflavíkurflugvelli séu ekki ráðlegar.

„Ég held við ættum að íhuga þá orku okkar heilbrigðisstarfsmanna og fjármuni sem muni fara í þetta verkefni sem hugsanlega væri betur varið annars staðar vegna þess að þetta mun ekki koma í veg fyrir að veiran berist til landsins.“

Hún segir að miklar líkur séu á því að jákvæð sýni muni greinast úr einkennalausum ferðamönnum sem mögulega hafi verið veikir fyrir mánuði eða meira, komnir með mótefni og ekki smitandi.

„En við þurfum þá að bera ábyrgð á að einangra þá, fæða þá og veita þeim húsnæði í fjórtán daga,“ segir Bryndís sem bendir á þann mikla kostnað sem af því hlýst.

Lítið þurfi til að Landspítalinn fari aftur á neyðarstig

Bryndís var spurð hvort hún hefði miklar áhyggjur af því að smitum muni taka að fjölga eftir að landið verður opnað í júní.

„Það munu koma til Íslands ferðamenn og Íslendingar sem munu bera veiruna í sér. Það er óumflýjanlegt. Það er mikilvægt, finnst mér, að landsmenn átti sig á því að það þarf ekki mikið til að Landspítalinn sé settur aftur á ákveðið viðbúnaðarstig og jafnvel neyðarstig.“

Viðbúnaður á Landspítalanum þegar faraldurinn var í hámarki var gríðarlegur.

„Í tvo mánuði þá snerist heilbrigðiskerfið okkar um þessa veiru og allt annað sat á hakanum. Mér finnst mikilvægt að fólk átti sig á því að þessi staða gæti komið upp aftur.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.