Innlent

Segir kröfu um afsökunarbeiðni ófaglega og ummælin eðlilega athugun á störfum Neyðarlínunnar

Andri Eysteinsson skrifar
Dóra Björt hefur svarað yfirlýsingu Neyðarlínunnar.
Dóra Björt hefur svarað yfirlýsingu Neyðarlínunnar. Vísir/Vilhelm

„Neyðarlínan hefur ekki verið sett á sakabekk af mér né borginni. Aðeins hefur verið óskað eftir svörum og skýrum merkjum um að atvikið sé tekið alvarlega og staðfestingu á að ekki sé um kerfisbundið vandamál að ræða heldur einstaka atvik,“ segir borgarfulltrúinn Dóra Björt Guðjónsdóttir um kröfu Neyðarlínunnar um afsökunarbeiðni vegna ummæla sem Dóra lét falla í útvarpi á Rás 2 í morgun.

Sjá einnig: Neyðar­línan krefur borgar­full­trúa um af­sökunar­beiðni vegna „grófra og meiðandi á­sakana“ 

Dóra segir viðbrögð Neyðarlínunnar hryggja sig og segir ummælin eingöngu hafa verið eðlileg athugun á störfum fyrirtækisins í kjölfar kvartana borgarbúa. „Yfirlýsingin sem send var út í dag er ekki til þess gerð að ýta undir opna umræðu og faglega skoðun á því atviki sem til umræðu hefur verið að undanförnu,“ skrifar Dóra Björt á Facebook-síðu sína.

Borgarfulltrúinn segir það rangt að hún hafi sagt atvikið ekki hafa verið tekið alvarlega vegna fordóma gegn minnihlutahópum. „Í viðtalinu í morgun sagði ég það sanngjarnt að spyrja hvort viðbrögðin voru eðlileg. Um leið sagði ég að í kjölfar þessa atviks hafi ég heyrt frá fleirum þá tilfinningu að viðhorfið sé ójafnt eftir því hvern um er að ræða.“ Þetta sé ekki ásökun af hálfu oddvita Pírata í borgarstjórn heldur tilvitnun til opinberrar umræðu.

Dóra Björt segir kröfuna um afsökunarbeiðni ekki hafa verið faglega og ekki merki um vilja til þess að fara yfir það hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis. „Enn síður er það gagnlegt að gera mér upp skoðanir og ásakanir sem fara fyrir brjóstið á yfirmönnum Neyðarlínunnar og er haldið fram opinberlega af öðrum og í kjölfarið krefjast afsökunarbeiðni fyrir þann tilbúning,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn Reykjavíkurborgar.

Sjá má færslu Dóru Bjartar í heild sinni hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×