Innlent

Neyðar­línan krefur borgar­full­trúa um af­sökunar­beiðni vegna „grófra og meiðandi á­sakana“

Andri Eysteinsson skrifar
Dóra Björt Guðjónsdóttir er oddviti Pírata í Borgarstjórn.
Dóra Björt Guðjónsdóttir er oddviti Pírata í Borgarstjórn. Vísir/Vilhelm

Neyðarlínan krefur Dóru Björt Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata, um afsökunarbeiðni vegna ummæla hennar sem hún lét falla í morgunþætti Rásar 2 í morgun. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Neyðarlínunni.

Í yfirlýsingunni segir að Dóra hafi í þættinum kosið að setja fram „grófar en tilhæfulausar ásakanir á hendur starfsfólki Neyðarlínunnar vegna viðbragða Neyðarlínunnar í máli þar sem óskað var eftir aðstoð vegna ölvunarástands. Velti borgarfulltrúinn þar upp hvort viðbrögðin væru lituð af kvenfyrirlitningu og/eða andúð á útlendingum.

„Þessar ásakanir eiga sér auðvitað enga stoð í raunveruleikanum, enda staðfesti borgarfulltrúinn í viðtalinu að hún hafi ekki leitað upplýsinga um málið áður en hún kaus að setja fram grófar og meiðandi ásakanir í fjölmiðlum,“ segir í yfirlýsingunni.

Atvikið sem um ræðir laut að aðstoð vegna ölvunarástandi ungra stúlkna. Í yfirlýsingunni segir að beiðni um aðstoð hafi þegar verið komin lögreglu sem hafi sent lögreglubíl á vettvang. Eftir að símtal barst þar sem greint var frá því að viðkomandi andaði ekki hafi tveir sjúkrabílar verið kvaddir á vettvang með forgangsakstri.

„Stúlkunum var komið til bjargar átta mínútum eftir að fyrst var beðið um aðstoð og nokkrum mínútum seinna voru þær komnar á bráðadeild Landspítala. Færslur sýna að viðbrögð neyðarliða, lögreglu og sjúkraliða voru í senn fumlaus og hröð. Ásakanir borgarfulltrúa eiga sér því enga stoð,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá segir einnig að Dóra Björt hafi farið fram á að fulltrúi Neyðarlínunnar mætti á nefndarfund og kynnti þar verklag þjónustunnar. Fundurinn var haldinn í dag og var þar farið ítarlega yfir atburðarás í málinu sem um ræðir.

„Farið var vandlega yfir atburðarás í því máli sem borgarfulltrúinn hafið kosið að ræða við almenning á Rás 2 í morgun, áður en hún kynnti sér málið. Neyðarlínan fer fram á afsökunarbeiðni Dóru Bjartar Guðjónsdóttur vegna ósannra og meiðandi ummæla hennar,“ segir í lok yfirlýsingarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.