Enski boltinn

Enn súr og svekktur út í Benitez fimmtán árum eftir „kraftaverkið í Istanbul“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool, með bikarinn eftir sigur Liverpool í Meistaradeildinni 2005 en  Stephen Warnock var hvergi sjáanlegur í fögnuðinum eftir leik.
Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool, með bikarinn eftir sigur Liverpool í Meistaradeildinni 2005 en  Stephen Warnock var hvergi sjáanlegur í fögnuðinum eftir leik. Getty/Rebecca Naden

Í gær voru liðin fimmtán ár síðan að Liverpool lenti 3-0 undir í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í knattspyrnu en tókst að jafna í 3-3 og tryggja sér síðan Evrópumeistaratitilinn í vítaspyrnukeppni.

Flestir leikmenn Liverpool frá þessum tíma hugsa eflaust til baka til þessa kvölds með sælusvip en það einn leikmaður liðsins frá 2004-05 tímabilinu sem enn súr og svekktur út í knattspyrnustjórann Rafael Benitez.

Sá leikmaður heitir Stephen Warnock og átti að vera með í hópnum áður en Rafael Benitez henti honum út á síðustu stundu.

Warnock er nú 38 ára gamall, yfirgaf Liverpool 2007 og hætti að spila fyrir tveimur árum síðan. Hann spilaði 30 leiki með Liverpool 2004-05 þar af fjóra í Evrópukeppninni. Úrslitaleikurinn í Istanbul var hins vegar ekki einn af þeim.

Stephen Warnock var upphaflega í leikmannahópnum en Benitez henti honum síðan út fyrir Josemi skömmu fyrir leik.

„Þegar ég heyri fólk lýsa þessu sem einu af bestu kvöldunum í sögu Liverpool þá sárnar mér enn. Það er ennþá erfitt að sætta sig við þetta og það er sjokkerandi hvernig var tekið á þessu,“ sagði Stephen Warnock.

„Ég var í upphaflega hópnum þegar hann var tilkynntur á æfingasvæðinu nokkrum dögum fyrir leikinn. Ég var himinlifandi með það. Síðan nokkrum klukkutímum síðar þá fékk ég símtal frá aðstoðarmanni Rafa Benitez, Pako Ayesteran, sem sagði að þeir hefðu gert mistök. Josemi kom í staðinn fyrir mig,“ sagði Stephen Warnock.

„Þetta var súrt en ekki síst þar sem Rafa hafði ekki mann í sér til að hringja í mig sjálfur. Hann talaði aðeins við mig á vellinum eftir leik en ég var í engu skapi til þess enda sauð enn á mér,“ sagði Warnock.

„Ég var sjóðandi allan leikinn. Ekki misskilja mig, þetta var aldrei þannig að ég óskaði þess að þeir töpuðu. Liverpool var minn klúbbur og þetta voru liðsfélagarnir mínir. Það er aftur á móti sárt þegar þú færð ekki að vera með og ég var að hugsa um það allan leikinn. Ég nánast tók ekki eftir því sem var að gerast inn á vellinum,“ sagði Warnock.

„Ef þið horfið á fögnuðinn eftir leikinn, þá er fullt af fólki á myndunum en ég sést hvergi. Ég gat bara ekki verið þarna,“ sagði Stephen Warnock.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×