Innlent

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu haft af­skipti af á sjöunda hundrað vegna aksturs undir á­hrifum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu.
Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu. Vísir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur á árinu haft afskipti af nokkur hundruð ökumönnum sem hafa verið undir áhrifum áfengis, lyfja eða fíkniefna. Í fyrra slösuðust 36 manns í umferðinni vegna vímuefnaaksturs.

Akstur undir áhrifum áfengis, lyfja eða ávana- og fíkniefna hefur löngum verið vandamál hér á landi. Það sem af er ári hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haft afskipti af 407 ökumönnum sem höfðu verið undir áhrifum ávana- og fíkniefna við aksturinn og 285 ökumönnum sem höfðu verið undir áhrifum áfengis.

„Við hjá Samgöngustofu höfum áhyggjur af því þegar fólk er að blanda saman inntöku efna sem hafa ýmist slævandi eða örvandi áhrif vegna þess að það hefur áhrif á aksturshæfni og ákvarðanatöku undir stýri,“ segir Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu.

Hún segir ölvunar- og vímuefnaakstur geta valdið óbætanlegum skaða. Akstur undir áhrifum áfengis eða lyfja er ein af þremur algengustu orsökum banaslysa í umferðinni.

„Undangengin ár þá sáum við mjög vaxandi fjölda slysa vegna fíkniefnaaksturs og það keyrði eiginlega um þverbak árið 2018,“ segir Þórhildur.

Árið 2018 slösuðust 85 manns í umferðinni vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna þar af fjórtán alvarlega. Í fyrra slösuðust 36 manns og þar af fjórir alvarlega. Þórhildur vonast til að þróunin haldi áfram að vera jákvæð.

Þá hefur verið nokkuð um það að fólk slasist í umferðinni vegna aksturs undir áhrifum löglegrar lyfjaneyslu en sautján slösuðust í fyrra, þar af fimm alvarlega.

„Ef fólk er að taka lyf sem getur valdið einhvers konar skerðingu á aksturshæfni þá er það alltaf áhættuþáttur sem við hjá Samgöngustofu viljum fyrir alla muni biðja fólk um að hafa í huga.“


Tengdar fréttir

Erill hjá lögreglu vegna vímuefnaaksturs

Lögregla sinnti í það minnsta sex útköllum frá klukkan 15 í gær þar til klukkan 5 í morgun vegna vímuefnaaksturs á höfuðborgarsvæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×