Erlent

Lifði af flugslysið í Pakistan: „Ég heyrði bara öskrin“

Sylvía Hall skrifar
Farþegaþotan brotlenti í miðju íbúðahverfi í Karachi.
Farþegaþotan brotlenti í miðju íbúðahverfi í Karachi. Vísir/Getty

Annar þeirra tveggja sem komst lífs af úr flugslysi í pakistönsku borginni Karachi í gær segist aðeins hafa séð eld eftir að vélin brotlendi. Muhammad Zubair komst lífs af með minniháttar áverka, en alls voru 99 um borð.

Þegar vélin gerði aðra tilraun til lendingar klukkan 14:30 að staðartíma í gær brotlenti hún skömmu síðar. Flugstjórinn hafði tilkynnt flugumferðarstjórn um tæknilega bilun og aðeins nokkrum sekúndum fyrir slysið sagði hann báða hreyflana vera í ólagi.

Á vef BBC er haft eftir Zubair að vélin hafi brotlent um það til tíu til fimmtán mínútum eftir fyrstu tilraun til lendingar. Enginn hefði áttað sig á því að vélin væri að brotlenda þar sem allt virtist vera í lagi.

Þegar hann komst aftur til meðvitundar eftir brotlendinguna segist hann hafa heyrt öskur úr öllum áttum.

„Börn og fullorðnir. Eina sem ég sá var eldur. Ég gat ekki séð neitt fólk – ég heyrði bara öskrin.“

Hann losaði sætisbelti sitt og sá svo ljós sem hann ákvað að fylgja. Hann þurfti svo að stökkva niður úr þriggja metra hæð til að komast úr flakinu.

Ekki er vitað hver tildrög slyssins voru en flugmálayfirvöld rannsaka nú brotlendinguna. Flugriti vélarinnar fannst í dag og er hann til rannsóknar. Talið er að aðeins tveir hafi komist lífs af.


Tengdar fréttir

Tugir fórust í flugslysinu í Pakistan

Að minnsta kosti þrjátíu og sjö fórust og enn fleiri er saknað eftir að pakistönsk farþegaflugvél brotlenti í íbúðahverfi í borginni Karachi í dag. Þremur hefur verið bjargað enn sem komið er, tveimur farþegum og einum íbúa hverfisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×