Innlent

Miður þegar mikilvægur slökkvibúnaður er ekki tiltækur

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Slökkviliðsmenn í Borgarfirði, Akranesi og Reykjanesbæ stóðu í ströngu í margar klukkustundir þegar eldur kom upp í gróðri í Norðurárdal í vikunni.
Slökkviliðsmenn í Borgarfirði, Akranesi og Reykjanesbæ stóðu í ströngu í margar klukkustundir þegar eldur kom upp í gróðri í Norðurárdal í vikunni. Vísir/Jóhann K.

Formaður Félags slökkviliðsstjóra segir það áhyggjuefni að mikilvægur slökkvibúnaður sé ekki tiltækur þegar hans er þörf en svokölluð slökkviskjóla, sem notuð eru við gróðurbruna, voru ekki tiltæk þegar stórt og viðkvæmt svæði brann í Norðurárdal í vikunni.

Um hundrað manns tóku þátt í slökkvistarfi þegar mikill gróðureldur kviknaði í Norðurárdal í Borgarfirði í síðustu viku. Mikið af kjarri og mosa varð undir í eldinum, á um 15 hektara svæði.

Á landinu er til ein svokölluð slökkviskjóla, 2000 lítra poki sem þyrla getur borið og sleppt vatni yfir svæði sem brennur. Skjóðan var keypt í kjölfar Mýrareldanna í Borgarfirði árið 2006, fjármögnuð af opinberum stofnunum en komið fyrir hjá Landhelgisgæslunni sem hefur sinnt þjónustunni.

Pétur Pétursson, formaður Félags slökkviliðsstjóra á Íslandi og slökkvistjóri Brunavarna Árnessýslu.Vísir/Jóhann K.

Afleitt þegar búnaðurinn er ekki tiltækur

Formaður Félags slökkviliðsstjóra segir afleitt þegar mikilvægur slökkvibúnaður er ekki til staðar þegar á þarf að halda en skjólan var ekki tiltæk þegar eldurinn kom upp í síðustu viku sem gerði slökkvistarf mun erfiðara.

„Án efa hefði þetta hjálpað mikið til og sparað mikið streð hjá slökkviliðsmönnunum og eflaust náð að slökkva eldinn mun fyrr en ella,“ segir Pétur Pétursson, formaður Félags slökkviliðsstjóra á Íslandi og slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu.

Hér að neðan má sjá umfang og aðstæður á vettvangi í Norðurárdal í vikunni.

Ekki við Landhelgisgæsluna að sakast

Pétur segir að þrátt fyrir að Landhelgisgæslan hafi verið fengin til sinna þjónustunni sé það ekki skilgreint hlutverk stofnunarinnar að slökkva elda og nota búnaðinn.

„Það er hins vegar ekki inni í þeirra verklagi, reglum eða lagaverki að það er ekki þeirra hlutverk að nota hana og gera þá ráð fyrir að hún sé alltaf tiltæk,“ segir Pétur.

Pétur segir ekki við Landhelgisgæsluna að sakast og kallar eftir betra regluverki, verklagi og auknu fjármagni því reka þurfi búnaðinn. Ein skjóla sé ekki nóg og er hann kominn vel til ára sinna.

„Svo sannalega þyrfti að skrifa þetta inn í regluverk og tryggja þessu sess á réttum stað þannig að hægt sé að nota hana í því umhverfi sem við búum við í dag sem er þá það að gróðureldhætta hefur aukist til muna,“ segir Pétur.


Tengdar fréttir

Slökktu eldana í Borgarfirði í morgun

Slökkvistarfi lauk í Norðurárdal í Borgarfirði á sjötta tímanum í morgun en á svæðinu hafði umfangsmikill gróðureldur logað síðan í gær.

Slökktu eldana í Borgarfirði í morgun

Slökkvistarfi lauk í Norðurárdal í Borgarfirði á sjötta tímanum í morgun en á svæðinu hafði umfangsmikill gróðureldur logað síðan í gær.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×