Innlent

Ferðabannið gríðarlegt reiðarslag fyrir þjóðina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á þriðjudag, þegar hann kynnti efnahagsaðgerðir vegna kórónuveirunnar.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á þriðjudag, þegar hann kynnti efnahagsaðgerðir vegna kórónuveirunnar. Vísir/vilhelm
Ferðabann Bandaríkjaforseta er gríðarlegt reiðarslag að mati fjármálaráðherra, sem segist hafa snöggreiðst þegar hann heyrði af ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta í nótt. Bjarni Benediktsson telur að það hefði verið heillavænlegra fyrir ríki heims að auka samstarf til að takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar og efnahagsleg áhrif hennar. Mikilvægast sé að standa vörð um líf og heilsu landsmanna. Ísland sé vel í stakk búið til að takast á við áföll, þegar sé búið að kynna aðgerðir til að blása lífi í hagkerfið og stjórnvöld vinni ekki út frá því að „þetta reddist.“

Fjármálaráðherra segir Íslendinga standa frammi fyrir fleiri en einni ógn; bæði af veirunni sjálfri sem og þeim áhrifum sem henni fylgj. Mikilvægast sé að hefta útbreiðslu veirunnar, hlífa fólki í veikri stöðu og þannig lágmarka álag á heilbrigðiskerfið.

Sjá einnig: Trump lokar á ferðalög frá Evrópu til Bandaríkjanna

„Við verðum að standa saman um ábyrga og skynsamlega hegðun. Þetta er í fyrsta sæti hjá okkur til þess að hlífa hreinlega lífi fólks hérna á Íslandi,“ segir Bjarni. „Ef við missum stjórn á þeirri stöðu þá förum við upp fyrir ákveðinn þröskuld sem heilbrigðiskerfið ræður við, alveg eins og við höfum séð í öðrum löndum. Þetta verður að vera í fyrsta sæti hjá okkur," segir fjármálaráðherra.

Efnahagslega áfallinu sem veirunni fylgir lýsir fjármálaráðherra sem „gríðarlegu reiðarslagi fyrir þjóð sem byggir afkomu sína í sívaxandi mæli á komu ferðamanna til landsins. Það er alveg ljóst að áhrifin sem við stöndum frammi fyrir eru langt umfram það sem við gátum ímyndað okkur fyrir tveimur vikum, tíu dögum, jafnvel á mánudaginn.“

Góð staða en alveg nýtt samhengi

Degi síðar kynntu stjórnvöld aðgerðir til að mæta mögulegum þrengingum vegna veirunnar. Þær má nálgast hér. Þrátt fyrir að Bjarni segist hafa fulla trú á aðgerðunum og reynt verði „að bjarga sem flestum störfum og valda sem minnstri röskun hjá heimilum“ segir fjármálaráðherra að ekki sé hægt að fyrirbyggja slíkt.

Það verði líklega ekki hjá „gríðarlegum áföllum“ hjá ferðaþjónustunni komist. Það hafi ekki síst verið í því ljósi sem ákveðið hafi verið að „styrkja stuðningskerfin okkar og smíða leiðir til þess að þeir sem lenda í slíkum áföllum fái stuðning frá okkur hinum því við ætlum að ná okkur aftur upp úr þessu,“ eins og Bjarni orðar það.

Sjá einnig: Ferðabann Trump mun bíta Íslendinga

„Góðu fréttirnar eru þær að við höfum nýtt góðu árin undanfarið til að koma okkur í sterka stöðu. Við höfum, eins og Seðlabankinn benti á í gær, líklega aldrei verið í sterkari stöðu til að fást við áföll. Við höfum greitt upp það mikið af skuldum, við höfum notið góðra lánskjara að undanförnu og við höfum einfaldlega getuna til að taka áfall í fangið. Við vorum að vonast til að komast út úr hægara hagkerfi á tiltölulega skömmu tíma og tryggilega, en þetta setur hlutina í alveg nýtt samhengi," segir Bjarni.

Trump greindi frá ferðabanninu í gærkvöldi. Það tekur gildi á morgun. Bjarni Benediktsson segir ákvörðunin hafa verið fyrirvaralausa, einhliða og mjög ergilega.Getty/pool

Einhliða og fyrirvaralaus ákvörðun

„Maður snöggreiðist innan í sér þegar maður heyrir svona ákvarðanir sem manni finnst að eigi ekki að geta komið upp í alþjóðasamskiptum, án fyrirvara og einhliða. Ég lít þannig á að við ættum frekar að efla samstarf ríkja um að lágmarka útbreiðsluna og efnahagsleg áhrif af henni. Þetta sýnir enn og aftur það sem við höfum séð svo oft í sögunni og megum aldrei gleyma að þegar svona krísur koma upp; þá er hver sjálfum sér næstur. Þetta er bara enn eitt dæmið um það og við verðum að gæta að okkar hagsmunum líka.“

Sjá einnig: Veita fyrirtækjum svigrúm og bæta í opinberar framkvæmdir

Bjarni gefur þannig ekki mikið fyrir þann rökstuðning Trump að Evrópuríkin, Ísland þar með talið, hafi ekki tekið nógu fast á veirunni. Staðan sem upp er komin sé fordæmalaus, ekkert bóluefni sé til við veirunni og útbreiðslan sé hröð. „Það er ekki boðleg nálgun að segja að stjórnvöld hafi verið kærulaus í öðrum ríkjum. Veiran hefur komið upp í Bandaríkjunum, veiran varð ekki til í Evrópu,“ segir Bjarni. 

„Ég skil allar ríkisstjórnir sem grípa til umfangsmikilla aðgerða til að hefta útbreiðsluna, það ætlum við líka að gera og við höfum beitt þeim aðferðum á hverju stigi málsins sem mat okkar færasta fólks hefur talið færastar og réttar. Við höfum sagt að það kunni að koma til frekari aðgerða og það er metið oft á dag á hverjum degi. En það er reiðarslag engu að síður að svona afdrifaríkar ákvarðanir séu teknar án aðdaganda og án samtals með þessum hætti. Afleiðingar af þessari ákvörðun eiga auðvitað alfarið eftir að koma í ljós en maður sér það í hendi sér hversu gríðarlegar þær verða.“

Það má vænta þess að ferðabannið muni hafa mikil áhrif á afkomu Icelandair Group.Vísir/vilhelm

Tjónið lágmarkað og stutt við Icelandair

Þegar Bjarni var spurður hvort íslensk stjórnvöld geti sótt um undanþágu frá ferðabanninu segir hann að farið sé yfir alla kosti í stöðunni. Ekki sé þó gengið út frá því að „þetta reddist.“ Íslendingar verði að líta á ákvörðun Bandaríkjaforseta sem reiðarslag sem geti varað í einhvern tíma. Aðgerðir stjórnvalda munu miða við það.

Bjarni segir jafnframt að engin trygging sé fyrir því að ferðamennska fari aftur á fullt um allan heim, þó svo að nýskráðu smiti fari fækkandi að einhverjum mánuðum liðnum. „En það sem við getum gert er að vera tilbúin með markaðsátak, þó svo að það kunni að hljóma einkennilega í dag, samhliða öðrum aðgerðum til að vera reiðubúin að lágmarka tjónið og fjölga störfum í þessari atvinnugrein sem á sér bjarta framtíð. Þetta er tímabundið ástand.“

Aðspurður um hvort stjórnvöld muni hlaupa undir bagga með Icelandair, sem megi vænta umtalsverðs bakslags vegna ferðabannsins, segir Bjarni að stjórnvöld muni gera „allt sem er raunhæft“ til að styðja félagið í gegnum erfiða tíma. Það sé hins vegar ekki tímabært að fara að úttala sig um leiðir í því.

Viðtalið við hann í heild má heyra hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×