Erlent

Tölvuárásum fjölgar mjög á tímum fjarvinnu

Samúel Karl Ólason skrifar
Finnskir rannsakendur segja einnig að tíðni tölvuárása í Bandaríkjunum og víða í Evrópu hafi tvöfaldast frá janúar til mars.
Finnskir rannsakendur segja einnig að tíðni tölvuárása í Bandaríkjunum og víða í Evrópu hafi tvöfaldast frá janúar til mars. EPA/RITCHIE B. TONGO

Tölvuárásum gegn fyrirtækjum í Bandaríkjunum og víðar hefur fjölgað verulega að undanförnu, samhliða aukinni heimavinnu vegna heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar. Tölvuþrjótar hafa reynt að nýta sér það að fólk sé að vinna heima en það hefur gert netöryggissérfræðingum erfitt að tryggja innri kerfi fyrirtækja.

Það er vegna þess hve margir vinna að heiman, á mismunandi tölvur, með mismunandi netbúnað og misgott öryggi. Það að svo margir tengi sig við innri kerfi fyrirtækja utan frá, hefur sömuleiðis aukið hættu á tölvuárásum, samkvæmt frétt Reuters.

Forsvarsmenn netöryggisfyrirtækisins VMWare Carbon Black sögðust hafa tekið eftir 148 prósenta aukningu í svokölluðum „ransomware“ árásum í mars, samanborið við mars í fyrra. Slíkar árásir ganga út á að tölvuþrjótar reyna að ná stjórn á tölvum og kerfum og þvinga fólk og fyrirtæki til að greiða svo gögnum sé ekki eytt.

Finnskir rannsakendur segja einnig að tíðni tölvuárása í Bandaríkjunum og víða í Evrópu hafi tvöfaldast frá janúar til mars.

Yfirvöld Bandaríkjanna vöruðu við því á miðvikudaginn að tölvuþrjótar á vegum einræðisstjórnar Norður-Kóreu væru að reyna árásir á alþjóðafjármálastofnanir og fyrirtæki. Markmið þeirra væri að stela peningum og skaða stöðugleika alþjóðafjármálakerfisins.

Í yfirlýsingu frá Utanríkisráðuneyti, Fjármálaráðuneyti og Alríkislögreglu Bandaríkjanna, segir að einræðisstjórn Kim Jong Un reiði sig sífellt meira á tölvuárásir til að verða sér út um fé til vopnaþróunar og framleiðslu. Til marks um það megi benda á WannaCry 2.0 árásina í maí 2017.

Ormurinn fór í að minnsta kosti 300 þúsund tölvur í 150 löndum vítt og breitt um heiminn og olli gífurlegu tjóni.

Politico sagði frá því í gær að leyniþjónustur Bandaríkjanna hafa greint mikla aukningu í tölvuárásum á bandarísk fyrirtæki sem vinna að verkefnum fyrir herafla ríkisins og búa yfir leynilegum upplýsingum. Þar á meðal eru fyrirtæki sem vinna í heilbrigðistækni.

Árásirnar hafa verið raktar til tölvuþrjóta á vegum Kommúnistaflokks Kína.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×