Erlent

Framdi skotárás eftir að hafa verið beðinn um að vera með grímu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Maðurinn er nú í haldi lögreglunnar í Aurora í Denver.
Maðurinn er nú í haldi lögreglunnar í Aurora í Denver. Vísir/EPA

Lögreglan í Aurora í Colorado-ríki í Bandaríkjunum hefur handtekið 27 ára mann sem grunaður er um skotárás. Hann er sagður hafa byrjað að skjóta á starfsmann veitingastaðarins Waffle House, eftir að starfsmaðurinn bað manninn um að bera grímu inni á staðnum. Þetta kemur fram á vefmiðlinum Denver Post.

Samkvæmt handtökuskýrslu segja starfsmenn veitingastaðarins að maðurinn, sem heitir Kelvin Watson, hafi komið inn á staðinn rétt eftir miðnætti á fimmtudag. Þjónustustúlka hafi bent honum á að hann þyrfti að vera með grímu til þess að fá afgreiðslu og að staðurinn byði aðeins upp á mat til að taka með, sökum kórónuveirufaraldursins.

Watson er þá sagður hafa farið út af staðnum. Hann hafi þó fljótt snúið haldandi á grímu. Honum var þá tjáð að hann fengi ekki afgreiðslu nema hann setti grímuna á andlitið. Þá hafi hann sett skammbyssu á afgreiðsluborðið og sagt kokki staðarins að hann gæti „skotið hann í tætlur.“ Hann hafi síðan yfirgefið staðinn.

Þá segir í skýrslunni að Watson hafi snúið aftur á staðinn um sólarhring síðar og þá slegið kokkinn, þann sama og hann hafði haft í hótunum við kvöldið áður, þegar honum var tjáð að hann fengi ekki afgreiðslu án grímu. Hann hafi síðan skotið kokkinn í bringuna áður en hann hljópst á brott. Lögreglu tókst þó að hafa hendur í hári hans. Kokkurinn var útskrifaður af spítala síðdegis á föstudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×