Erlent

Sagðist hafa fengið greitt fyrir að tala gegn þungunarrofi

Kjartan Kjartansson skrifar
Norma McCorvey, þekkt sem Jane Roe í dómsmálinu fræga, á bæn með kristnum klerki í Kansas árið 2007. 
Norma McCorvey, þekkt sem Jane Roe í dómsmálinu fræga, á bæn með kristnum klerki í Kansas árið 2007.  Vísir/EPA

Konan sem Hæstiréttur Bandaríkjanna dæmdi að hefði rétt á þungunarrofi og lögleiddi þannig aðgerðina á 8. áratug síðustu aldar hélt því fram að hún hefði fengið greitt til að vinda kvæði sínu í kross og tala gegn þungunarrofi. Þetta kemur fram í nýrri heimildarmynd.

Dómur Hæstaréttar Bandaríkjanna árið 1973 lögleiddi þungunarrof í landinu. Norma McCorvey, konan sem vann málið en var aðeins nafngreind sem Jane Roe í dómskjölum, vakti mikla athygli þegar hún lýsti sig andsnúna rétti kvenna til þungunarrofs árið 1995.

McCorvey lést 69 ára að aldri árið 2017 en í myndefni sem birtist í heimildarmyndinni „AKA Jane Roe“ sést hún játa að kristin samtök hefðu greitt henni til þess að mótmæla þungunarrofi á sínum tíma. Viðtalið var tekið skömmu fyrir andlát McCorvey.

„Ég var stóri fiskurinn. Ég held að þetta hafi verið gagnkvæmt. Ég tók við peningunum þeirra og þau settu mig fyrir framan myndavélarnar og sögðu mér hvað ég ætti að segja,“ segir McCorvey í viðtalinu og heldur því fram að um leikþátt hafi verið að ræða.

„Ef ung kona vill fara í þungunarrof skiptir það mig ekki máli. Þess vegna kalla þeir þetta val,“ segir hún í því sem hún kallar „játningu á dánarbeði“.

Mál McCorvey er þekkt sem Roe gegn Wade í Bandaríkjunum. Hún var 25 ára gömul einstæð móðir sem stefndi Henry Wade, dómsmálaráðherra Texas, vegna laga sem gerðu þungunarrof glæpsamlegt í ríkinu nema þegar líf móður var í hættu. McCorvey höfðaði málið þegar hún gekk með sitt þriðja barn og hélt því fram að henni hefði verið nauðgað. Henni var synjað um þungunarrof og fæddi barnið.

Robert Schenck, einn af prestunum sem vann með McCorvey eftir að hún byrjaði að tala gegn þungunarrofi, viðurkennir í heimildarmyndinni að samtökin hafi greitt henni allt að hálfa milljón dollara. Breska ríkisútvarpið BBC segir að Schenck hafi birt bloggfærslu þar sem hann lýsti iðrun í vikunni. Heimildarmyndin hefði grætt hann og hvatti hann alla til þess að horfa á hana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×