Innlent

Bjart og hlýtt suð­vestan­lands en slyddu­él fyrir norðan

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Búast má við að sólríkt verði á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Búast má við að sólríkt verði á höfuðborgarsvæðinu í dag. Vísir/Vilhelm

Í dag má búast við norðan stinningsgolu eða -kalda víðast hvar og meiri vindi framan af degi norðaustantil. Varað er við allhvassri eða hvassri norðvestanátt austast á landinu fyrri part dags og ökumenn einkum hvattir til að sýna aðgát.

Annars verður léttskýjað í flestum landshlutum, hiti 1-5 norðaustantil en allt að 11 stig suðvestanlands. Þá þykknar upp með dálitlum skúrum eða slydduéljum á Norður- og Austurlandi.

Á morgun og næstu daga verða austlægar áttir ríkjandi og bjart með köflum, en víða líkur á lítilsháttar vætu. Hægt hlýnandi veður.

Um miðja vikuna er von á skilum að landinu með ákveðinni suðaustanátt og rigningu.

„En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott og skilunum mun fylgja talsvert hlýtt loft sem allt útlit er fyrir að staldri við hjá okkur fram að helgi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag: 

Austan og norðaustan 8-15 m/s, hvassast við suðurströndina. Bjart með köflum, en skýjað og lítilsháttar skúrir eða él um landið austanvert. Hiti frá 2 stigum austast, upp í 13 stig á Vesturlandi að deginum.

Á mánudag:

Suðaustan 3-8 m/s og víða bjartviðri, en austan 8-13 og stöku skúrir við suðurströndina. Hiti 4 til 11 stig, hlýjast á Norður- og Vesturlandi.

Á þriðjudag:

Fremur hæg austlæg eða breytileg átt og bjart með köflum. Hiti 4 til 12 stig, hlýjast norðan- og vestanlands.

Á miðvikudag:

Ákveðin suðaustlæg átt og rigning, en hægari og og væta með köflum norðanlands. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag (uppstigningardagur):

Suðlæg átt, dálítil væta sunnan- og vestanlands, en annars bjart með köflum og úrkomulítið. Hlýnandi.

Á föstudag:

Útlit fyrir suðlægar áttir, léttskýjað og hlýtt í veðri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×