Íslenski boltinn

Guðni tekur á sig launalækkun og starfshlutföll skert á skrifstofu KSÍ

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðni Bergsson hefur verið formaður KSÍ frá 2017.
Guðni Bergsson hefur verið formaður KSÍ frá 2017. vísir/daníel

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, tekur á sig launalækkun vegna kórónuveirufaraldursins. Þá verður starfshlutfall starfsmanna á skrifstofu KSÍ lækkað.

Þetta kom fram í Sportinu í dag þar sem Guðni var gestur þeirra Kjartans Atla Kjartanssonar og Henrys Birgis Gunnarssonar.

„Við minnkum starfshlutfall og reyna að fara í aðgerðir til minnka okkar kostnað. Við verðum fyrir tekjuskerðingu og það verða minni umsvif á starfseminni í einhverja mánuði,“ sagði Guðni.

„Við erum frekar knöpp. Á skrifstofu KSÍ eru sextán og hálft stöðugildi. Færeyingar eru með sautján. Meirihluti starfsmanna tekur á sig skerðingu og lækkar í starfshlutfalli. Við náum fram hagræðingu þar sem við teljum þörf á.“

Guðni svaraði því játandi er hann var spurður hvort laun hans yrðu lækkuð. „Þótt ég muni vinna fullt starf tek ég á mig launaskerðingu,“ sagði formaðurinn.

Þrátt fyrir erfiðleikana sem fylgja kórónuveirufaraldrinum segir Guðni að KSÍ standi ágætlega að vígi hvað peningamálin varðar.

„Við eigum góðan varasjóð sem við getum notað núna, bæði til að styðja við félögin og ef að þrengir hjá okkur. Við erum líka að reyna að auka okkar tekjur þótt umhverfið sé erfitt núna. Fjárhagur KSÍ er sterkur, hefur verið í mörg ár og verður það áfram,“ sagði Guðni.

Klippa: Sportið í dag - Guðni um launalækkanir hjá KSÍ

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.