Innlent

Ráðleggur Íslendingum að fara ekki til útlanda

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Lögreglan

Sóttvarnalæknir ráðleggur Íslendingum að láta það vera að fara til útlanda eins og staðan er nú. Enn sé víða mikil óvissa um faraldur kórónuveiru í öðrum löndum og tilefni til að fara varlega.

Ríki heims eru mörg nú að stíga skref í átt að opnun landamæra eftir faraldurinn. Þannig hafa fulltrúar Evrópusambandsins hvatt aðildarríki til að slaka á aðgerðum og takmörkunum. Eystrasaltsríkin Eistland, Lettland og Litháen hafa til að mynda opnað landamæri sín gagnvart hvert öðru og Þjóðverjar hyggjast opna landamæri sín að Austurríki, Sviss og Frakklandi á laugardag. Þá er víða stefnt að algjörri opnun landamæra í júní.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sjálfur sagt að hann gerði ekki ráð fyrir að ferðast til útlanda á þessu ári. Þórólfur var á upplýsingafundi almannavarna nú síðdegis inntur eftir ráðleggingum til þeirra Íslendinga sem sjá nú fyrir sér utanlandsferðir á árinu í kjölfar tilslakana.

Þórólfur benti á að staðan væri óviss í flestum löndum og erfitt væri að fá skýra mynd af því hvar útbreiðsla veikinnar væri mikil eða lítil. Þannig væri mismikið tekið af sýnum eftir löndum o.s.frv.

„Þannig að eins og staðan er núna finnst mér þetta ekki víst og öruggt hverju maður á að treysta í því. Þannig að ég myndi ráðleggja öllum að fara bara mjög varlega, vera ekkert að fara til útlanda nema það sé mjög brýn ástæða. En þetta breytist á næstunni, á vikum og mánuðum, og þá fær maður örugglega betri mynd af því sem er að gerast. En þannig lít ég á það núna,“ sagði Þórólfur.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×