Innlent

Margir hafa hug á að ferðast hingað til lands

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Algjört hrun hefur orðið í ferðaþjónustu vegna kórónuveirufaraldursins en Icelandair bindur vonir við að landið getið risið hratt að nýju.
Algjört hrun hefur orðið í ferðaþjónustu vegna kórónuveirufaraldursins en Icelandair bindur vonir við að landið getið risið hratt að nýju. Vísir/Vilhelm

Mikill áhugi er á Íslandi sem áfangastað meðal ferðafólks og þeim sem geta hugsað sér að ferðast á milli Evrópu og Norður-Ameríku fjölgar. Þetta sýna markaðskannanir Icelandair en fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

Í frétt blaðsins segir að 86% svarenda könnunarinnar segjast treysta Íslandi þegar kemur að málefnum sem tengjast útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þegar fólk er síðan spurt hvort það sé áhugasamt um að ferðast til Íslands í framtíðinni segja 76% svarenda að áhuginn sé fyrir hendi. Er áhuginn sérlega mikill í Toronto, London, París og á þeim svæðum í Bandaríkjunum sem hafa flugtengingar við Ísland.

„Í könnunum sem við gerum með reglubundnum hætti sjáum við að það er mikill áhugi á landinu. Auk þess sjáum við fjölga að nýju í þeim hópi sem getur hugsað sér að ferðast milli Norður-Ameríku og Evrópu,“ segir Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair í samtali við Morgunblaðið.

Hún segir niðurstöður kannananna gefa vonir um að landið geti risið hratt að nýju. Icelandair ætli að vera í tilbúið til að nýta breyttar aðstæður þegar færi gefst.

„Við hugsum þetta ekki síður út frá Íslendingum en farþegum að utan og við erum að búa okkur undir að leggja áherslu á hefðbundna staði fyrsta kastið, t.d. London, Kaupmannahöfn og Osló. Fólk virðist áhugasamt um þessa áfangastaði og fleiri og þar hefur eflaust áhrif að þarna búa margir Íslendingar og fólk er farið að bíða eftir því að geta heimsótt sitt fólk, hvort sem það er út fyrir landsteinana eða hingað heim,“ segir Birna Ósk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×