Innlent

„Prestar búa yfir þagnar­skyldu og þarna er verið að rjúfa hana að mínum skilningi“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Vísir/Baldur

„Prestar búa yfir þagnarskyldu og þarna er verið að rjúfa hana að mínum skilningi,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, um ásökun Skírnis Garðarsonar, prests, á hendur konunnar sem grunuð er um skjalafals í bakvarðasveit á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Agnes segir það hafa blasið við sér að um trúnaðarbrot væri að ræða.

Skírnir sakaði konuna í viðtali á Vísi í gær um að hafa beitt svikum til þess að fá fjárhagsaðstoð úr líknarsjóði Lágafellskirkju árið 2013 þegar hann var prestur í sókninni. Konan kærði hann fyrir brot á persónuverndarlögum, ásamt starfsmanni Mosfellsbæjar, eftir að hann lét kanna hvort hún segði rétt frá.

Þá sagðist Skírnir hafa vitað af henni í bakvarðasveitinni eftir að sýnt var frá þyrlu Landhelgisgæslunnar flytja bakverði vestur í Bolungarvík. Hann hafi íhugað að láta vita en látið það ógert. Eftir að málið kom fram í dagsljósið hafi hann sett sig í samband við Gylfa Ólafsson, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Agnes segir í samtali við fréttastofu að málið verði kannað og því fylgt eftir. Hennar fyrsta verk verði nú að ræða við Skírni um málið. „Þetta mál verður skoðað og því fylgt eftir, það verður kynnt væntanlega í framhaldinu hver niðurstaðan verður.“


Tengdar fréttir

Bakvörðurinn kærður fyrir fjársvik á síðasta ári

Konan sem grunuð er um skjalafals vegna starfa sem bakvörður á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík sætir einnig rannsókn hjá lögreglu fyrir meint fjársvik. Hún er grunuð um að hafa áður og ítrekað villt á sér heimildir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×