Enski boltinn

Klopp leist ekkert á Mane þegar hann hitti hann fyrst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mané hefur verið frábær með Liverpool liðinu en hann kom ekki vel fyrir þegar hann hitti Jürgen Klopp fyrst.
Sadio Mané hefur verið frábær með Liverpool liðinu en hann kom ekki vel fyrir þegar hann hitti Jürgen Klopp fyrst. Getty/Simon Stacpoole

Jürgen Klopp segir að Sadio Mané hafi litið út „eins og rappari í startholunum“ þegar hann hitti hann fyrst en nú er hann einn af hans mikilvægustu leikmönnum í Liverpool liðinu.

Sadio Mané hefur verið frábær með Liverpool síðustu ár og er ein af stærstu ástæðunum fyrir allri velgengni liðsins. Hann er ein af bestu kaupum Jürgen Klopp sem knattspyrnustjóri Liverpool.

Sadio Mané var líka inn í myndinni hjá Jürgen Klopp þegar Þjóðverjinn stýrði Dortmund á sínum tíma en ekkert varð að því að Mané kæmi þá til hans. Ástæðan var líklega fyrstu kynni þeirra tveggja en Klopp leist ekkert á Sadio Mane þegar hann hitti hann fyrst.

Jürgen Klopp sagði frá fyrstu kynnum sínum af Mané í nýrri heimildarmynd um Senegalann sem heitir „Made In Senegal“ og kemur út í dag.

„Ég man þegar ég hitti Sadio fyrst. Það var í Dortmund. Þarna sat mjög ungur strákur. Hafnarboltahúfan hans var á ská og hann var líka með ljósu röndina sem hann er með í dag,“ Jürgen Klopp um fyrstu kynni þeirra.

„Hann leit út eins og rappari í startholunum. Ég hugsaði: Ég hef ekki tíma fyrir þetta. Liðið okkar þá var alls ekki slæmt. Ég þurfti á einhverjum að halda sem myndi ráða við það að vera ekki í byrjunarliðinu til að byrja með. Einhver sem ég gæti mótað,“ sagði Klopp.

„Ég fæ vanalega réttu tilfinninguna fyrir fólki en þarna hafði ég rangt fyrir mér. Ég fylgdist samt áfram með ferli hans og velgengninni hjá Salzburg. Hann var síðan allt í öllu hjá Southampton,“ sagði Klopp.

Sadio Mané skoraði eftirminnilega tvennu á móti Liverpool í mars 2016 og þrennu á móti Manchester City seinna um voriuð. Liverpool keypti hann um sumarið fyrir 34 milljónir punda og gerði hann að dýrasta afríska fótboltamanninum.

„Þetta gekk mjög vel. Sadio vildi jafnmikið vinna með mér og ég vildi vinna með honum. Við græddum því báðir,“ sagði Klopp.

Sadio Mané hefur síðan skorað 77 mörk í 161 leik með Liverpool þar af 59 mörk í 118 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.