Erlent

Varar við myrkasta vetri sögunnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Dr. Richard Bright stýrði líf- og læknisfræðirannsókna- og þróunardeild heilbrigðisráðuneytisins.
Dr. Richard Bright stýrði líf- og læknisfræðirannsókna- og þróunardeild heilbrigðisráðuneytisins. AP/Shawn Thew

Bandaríkin standa mögulega frammi fyrir myrkasta vetri sögunnar. Þetta segir fyrrverandi yfirmaður bandarískrar alríkisstofnunar sem ber ábyrgð á því að þróa lyf gegn kórónuveirunni. Hann hefur sakað háttsetta embættismenn í ríkisstjórn Donald Trump, forseta, um hafa bolað sér úr starfi eftir að hann varaði eindregið við faraldri nýju kórónuveirunnar í janúar.

Dr. Rick Bright segir nauðsynlegt að komið verði í veg fyrir aðra bylgju faraldursins, því annars muni illa fara. Þetta sagði hann á nefndarfundi orku og viðskiptanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

„Viðbragðsgluggi okkar fer minnkandi,“ sagði Bright í upphafsræðu sinni. Hann sagði að ef ekki tækist að móta samhæfar forvarnar- og viðbragðsaðgerðir, sem byggi á vísindum, óttaðist hann að ástandið í Bandaríkjunum mynd versna til muna og leiða til umfangsmikilla veikinda og fjölda dauðsfalla.

Bright stýrði líf- og læknisfræðirannsókna- og þróunardeild heilbrigðisráðuneytisins. Hann var skipaður árið 2016 áður en Trump varð forseti.

Sjá einnig: Uppljóstrari segir að sér hafi verið ýtt til hliðar fyrir að vara við faraldri

Honum var þó vikið úr starfi og eftirlitsaðilar hafa komist að þeirri niðurstöðu að honum hafi líklega verið refsað fyrir að tala gegn forsetanum varðandi lyfið hydroxychloroquine, og réttast væri að ráða hann aftur.

Minnst 1.393.890 hafa smitast af Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur, í Bandaríkjunum og minnst 84.239 hafa dáið.

Anthony Fauci, einn helsti yfirmaður sóttvarna í Bandaríkjunum, sagði þingmönnum fyrr í vikunni að ef takmörkunum vegna kórónufaraldursins yrði aflétt of snemma gæti það leitt til frekari útbreiðslu veirunnar.

Hann sagði ekki búið að ná stjórn á faraldrinum en yfirvöld væru þó á réttri leið.

Byrjað er að draga úr félagsforðun víða í Bandaríkjunum og hefur Trump þrýst töluvert á ríkisstjóra í þeim málum.

Þegar Trump var spurður út í ummæli Fauci sagði hann þó óásættanleg. Forsetinn gagnrýndi forstöðumann Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna og sagði nauðsynlegt að opna Bandaríkin á ný og senda börn aftur í skóla.

„Við viljum gera það á öruggan hátt en við viljum einnig gera það eins hratt og við getum,“ sagði Trump.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×