Fótbolti

Manchester-liðin fara ekki sömu leið og Liverpool

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Manchester United fagna í leik gegn Chelsea fyrr á leiktíðinni. Starfsfólk félagsins fær áfram full laun frá félaginu.
Leikmenn Manchester United fagna í leik gegn Chelsea fyrr á leiktíðinni. Starfsfólk félagsins fær áfram full laun frá félaginu. vísir/getty

Manchester-liðin tvö, United og City, munu ekki fara sömu leið og nýta sér úrræði stjórnvalda til þess að borga starfsfólki sínu 80% af launum þeirra á meðan kórónuveirufaraldurinn stendur yfir.

Rétt eins og á Íslandi, geta fyrirtæki í Englandi sótt um styrk frá ríkisstjórninni en þar á bæ greiða menn 80% af laununum á móti 20% frá atvinnurekanda, í líkingu við það sem við þekkjum á Íslandi.

Það vakti mikla athygli á laugardaginn þegar Liverpool tilkynnti að þeir myndu nýta sér úrræði stjórnvalda og margir hafa lýst yfir mikilli undrun sinni. Þar á meðal starfsmaður félagsins sem fannst ekki vera hluti af fjölskyldunni.

Liverpool er þar með í hópi með liðum eins og Newcastle og Tottenham en Manchester-liðin tvö gáfu út um helgina að þau myndu ekki nýta sér úrræði stjórnvalda og halda áfram að greiða sínu fólki full laun.

United er með yfir 900 starfsmenn, fyrir utan leikmenn sína, sem þeir halda áfram að borga en ekki er vitað hversu margir eru á launaskrá hjá Englandsmeisturunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×