Erlent

Japanir hyggjast lýsa yfir neyðar­á­standi

Atli Ísleifsson skrifar
Alls hafa 3.500 smit verið skráð í Japan og eru 85 dauðsföll rakin til Covid-19.
Alls hafa 3.500 smit verið skráð í Japan og eru 85 dauðsföll rakin til Covid-19. AP

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hyggst lýsa yfir neyðarástandi í landinu vegna faraldurs kórónuveiru.

Japanski fjölmiðillinn Yomiuri segir mögulegt að forsætisráðherrann geri það strax í kvöld og að það taki gildi á morgun.

Skráðum smitum í landinu hefur fjölgað hægt og bítandi og í gær fóru þau yfir þúsund í höfuðborginni Tókýó.

Lagabreytingar sem samþykktar voru í síðasta mánuði vegna hraðrar útbreiðslu veirunnar kveða á um að forsætisráðherrann geti lýst yfir neyðarástandi í landinu ef „mikil hætta“ stafi af sjúkdómnum eða ef útbreiðslan kunni að hafa gríðarleg áhrif á efnahagslíf landsins.

Neyðarlögin myndu veita ríkisstjórum í umdæmum þar sem útbreiðslan er sérstaklega mikil, heimild til að biðja fólk til að halda kyrru fyrir heima og fyrirtækjum að loka.

Alls hafa 3.500 smit verið skráð í Japan og eru 85 dauðsföll rakin til Covid-19.

Tilfelli á heimsvísu eru nú orðin tæplega 1,3 milljónir og dauðsföll rétt tæplega 70 þúsund. Flest tilfelli hafa eftir sem áður greinst í Bandaríkjunum, eða rúmlega 300 þúsund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×