Innlent

Komu fólki til aðstoðar vegna ófærðar í alla nótt

Samúel Karl Ólason skrifar
Flest verkefni Landsbjargar í nótt sneru að ófærð.
Flest verkefni Landsbjargar í nótt sneru að ófærð. Landsbjörg

Björgunarsveitafólk Landsbjargar hafði í nógu að snúast í nótt og voru um 50 manns að störfum fram á morgun. Flest verkefni þeirra sneru að ófærð og var mikið að gera á Suðurhluta landsins. Enn eru að berast tilkynningar um ökumenn í vandræðum. Fólk er hvatt til að forðast öll óþarfa ferðalög.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir verkefnin oft hafa verið fleiri. Þau hafi hins vegar gengið hægt og það hafi verið björgunarsveitafólki erfitt að komast á leiðarenda. Snjókoma hafi verið mikil, skyggni ekkert og ófærðin eftir því.

Einhverja bíla þurfti að skilja eftir og koma ökumönnum í skjól. Fjórir voru til að mynda fluttir í fjöldahjálparstöð á Laugarvatni. Þar lauk björgunarsveitafólk störfum um klukkan sex í morgun.

Þá voru einnig útköll vegna ófærðar á Hellisheiði og Suðurstrandavegi.

Sjá einnig: Aftakaveður í dag og ófært víða

Í morgun var kallað eftir aðstoð við að koma heilbrigðisstarfsfólki til og frá vinnu á Suðurlandi, í Hveragerði og á Selfossi. Þar er ófærð mikil innanbæjar. Lögreglan á Suðurlandi segir ekkert ferðaveður þar og biðlar til fólks að vera ekki á ferðinni þar sem er mjög þungfært.

Upp úr klukkan sjö í morgun var óskað eftir aðstoð björgunarsveita á Suðurnesjum. Þar höfðu ökumenn lent í vandræðum vegna innanbæjarófærðar. Þar að auki bárust tilkynningar um foktjón á Siglufirði.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×