Fótbolti

Lögreglan skipaði Birki Bjarna að fara heim

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason hefur nánast verið í stofufangelsi á Ítalíu síðustu vikur.
Landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason hefur nánast verið í stofufangelsi á Ítalíu síðustu vikur. EPA-EFE/ENNIO LEANZA

Birkir Bjarnason, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu og Brescia í ítölsku úrvalsdeildinni, er um þessar mundir fastur á heimili sínu á Ítalíu.

Birkir var í viðtali á RÚV sem birt var í gær. Þar kemur fram að Birkir hefur hefur varla farið úr húsí í fjórar vikur og þegar hann gerði sig líklegan til þess um daginn var hann rekinn aftur inn af lögreglu.

„Löggan stoppaði og skipaði mér inn. Það er ekkert annað hægt en að hlýða því og gera það,“ segir Birkir meðal annars í viðtalinu.

„Sumir dagir eru erfiðari en aðrir, þetta búinn að vera langur tími, komið upp í fjórar vikur núna sem maður er búinn að vera svolítið fastur inni hjá sér og ekki mikið að fara út. Fyrstu vikurnar var þetta aðeins frjálslegra og maður reyndi að fara aðeins út í göngutúra, setjast á bekk og lesa aðeins og fá sér smá ferskt loft.“ 

Birkir er staddur á því svæði sem hefur orðið hvað verst úti í kórónufaraldrinum.

„Ég er bara hálftíma frá Bergamo þar sem þetta er allra verst og ég var að heyra núna um daginn að Brescia er bær númer tvö yfir flesta látna og flesta smitaða,“ sagði Birkir að lokum.

Viðtalið við Birki má finna inn á vefsíðu RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×