Fótbolti

Telur að það sé verið að stilla knattspyrnumönnum upp við vegg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Danny Rose (til vinstri) segist glaður vilja leggja sitt af mörkum en hann vill hafa áhrif á það hvert peningurinn hans fer.
Danny Rose (til vinstri) segist glaður vilja leggja sitt af mörkum en hann vill hafa áhrif á það hvert peningurinn hans fer. EPA-EFE/LUKAS BARTH-TUTTAS

Danny Rose, vinstri bakvörður Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni, segir að það sé verið að stilla knattspyrnumönnum upp við vegg þegar kemur að því hvað þeir eigi að gera við launin sín.

Rose telur það fullkomlega eðlilegt að leikmenn lækki í launum miðað við stöðuna í samfélaginu en hann ræddi við BBC um málið í dag.

„Mér finnst ekkert að því að við gefum hluta launa okkar til fólks sem þarf á því að halda,“ sagði vinstri bakvörðurinn en hann er á láni hjá Newcastle frá Tottenham Hotspur.

Talið er að launalækkanir leikmanna og þjálfara muni spara allt að 145 milljónir punda. Mun sá peningur fara til liða í neðri deildum ensku knattspyrnunnar þar sem mörg hver eru á barmi gjaldþrots. Þá mun stór summa einnig fara til NHS, breska heilbrigðiskerfisins.

„Okkur finnst við vera með bakið upp við vegg. Við vorum byrjaðir að ræða það hvernig við gætum lagt okkur að mörkum áður en fólk utan knattspyrnunnar fór að skipta sér af. Það var engin þörf á því að fólk sem er ekki tengt knattspyrnu á einn eða annan hátt sé að segja okkur hvað við eigum að gera við peninginn okkar. Það er mjög skrítið.“

Er Rose eflaust að vitna í orð Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, sem sagði að fótboltamenn ættu að taka á sig launalækkun. Eins og Rose sagði voru leikmenn löngu farnir að skipuleggja slíkt og hafði Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, verið í samræðum við alla fyrirliða deildarinnar um hvað væri hægt að gera.

Jermaine Jenas, fyrrum leikmaður bæði Newcastle og Tottenham, starfar nú fyrir BBC. Hann telur þessi afskipti yfirvalda fáránleg.

„Leikmenn eru með hjartað á réttum stað. Þeir vildu bara ákveða sjálfir hvert peningurinn færi. Þeir eru nær allir tilbúnir að leggja sitt af mörkum og koma peningnum til þeirra sem þurfa á því að halda. Þeir vilja bara vita í hvað peningurinn þeirra fer.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×