Erlent

Spjót­in bein­ast að Tal­i­bön­um eft­ir fjöld­a­morð­ið á fæð­ing­ar­deild­inn­i

Samúel Karl Ólason skrifar
Vígamennirnir skutu þrjú ungbörn til bana.
Vígamennirnir skutu þrjú ungbörn til bana. AP/Rahmat Gul

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni á fæðingardeildina í Kabúl í Afganistan á þriðjudaginn. Öll spjót beinast þó að Talibönum og eru friðarviðræður á milli þeirra og ríkisstjórnar Afganistan í uppnámi. Upprunalega var gefið út að tvö ungbörn og ellefu mæður og ljósmæður hefðu dáið í árásinni. Nú hefur komið í ljós að 22 mæður og ljósmæður voru myrtar af vígamönnum. Sextán eru særðir.

Minnst þrír vígamenn réðust á fæðingardeildina á þriðjudaginn og skiptust á skotum við öryggissveitir í nokkrar klukkustundir áður en þeir voru felldir.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar fæddi ein kona barn á meðan á árásinni stóð en Læknar án landamæra, MSF, sem komu að rekstri fæðingardeildarinnar, segja bæði móður og barni heilsast vel.

MSF fordæma árásina í yfirlýsingu og segja hana viðbjóðslega.

Vitni segir ungar konur hafa verið skotnar til bana þar sem þær reyndu að fela sig undir rúmum sínum.Vísir/MSF

Reuters segir frá hinni 27 ára gömlu Zainab, sem hefur lengi reynt að eignast barn. Hún fæddi dreng að morgni þriðjudagsins og skírði hann Omid, sem þýðir von. Í upphafi árásarinnar virðist sem að einn árásarmannanna hafi skotið Omid til bana.

Muhammadi, tengdamóðir Zainab, segist hafa séð einn vígamannanna skjóta á óléttar konur og nýjar mæður, jafnvel þó þær hafi verið í felum undir rúmum sínum.

Á þriðjudaginn var einnig gerð sjálfsmorðsárás á jarðarför Nangarharhéraði. Þar dóu 32 en deild Íslamska ríkisins í Afganistan hefur lýst yfir ábyrgð á þeirri árás. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á fjöldamorðinu á fæðingardeildinni.

Inngangur fæðingardeildarinnar.Vísir/MSF

Öll spjót beinast þó að Talibönum, sem eiga nú í friðarviðræðum við yfirvöld Afganistan og hafa neitað því að koma að árásinni. Ashraf Ghani, forseti Afganistan, hefur fordæmt árásina harðlega og skipað öryggissveitum landsins að sækja fram gegn Talibönum.

Samband ríkisstjórnarinnar í Kabúl og Talibana er verulega slæmt um þessar mundir. Þessi árás mun gera friðarviðræðurnar mun erfiðari, efl ekki ómögulegar. Til marks um það skrifaði Hamdullah Mohib, þjóðaröryggisráðgjafi Ghani, í tísti í kjölfar árásarinnar að það virtist lítill tilgangur í því að ræða við Talibana um frið.

Hann sagði einnig að ekkert hefði dregið úr árásum Talibana, þrátt fyrir friðarviðræðurnar.


Tengdar fréttir

Íbúar Kabúl í losti eftir árás á fæðingardeild

Íbúar afgönsku höfuðborgarinnar Kabúl eru harmi slegnir eftir að vígamenn réðust á fæðingardeild sjúkrahúss í gær. Að minnsta kosti tuttugu og fjögur fórust, þar af tvö nýfædd börn.

Drápu ungbörn og mæður í árás á sjúkrahús í Kabúl

Tvö ungbörn og ellefu mæður og ljósmæður eru látnar eftir að vígamenn réðust á fæðingardeild sjúkrahúss í Kabúl, höfuðborg Afganistans í dag. Árásarmennirnir eru sagðir hafa verið dulbúnir sem lögreglumenn en þeir voru allir skotnir til bana í klukkustundalöngum skotbardaga í kjölfarið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×